140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

formennska í Samfylkingunni.

[13:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það var akkúrat þetta sem ég varaði við í upphafi máls míns, að hæstv. utanríkisráðherra lætur alltaf hlutina snúast um allt annað en það sem spurt er um. Honum tekst með ágætri ræðusnilld sinni að draga upp einhverja furðulega mynd, talar um tvílembinga, og af því tilefni langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Ef Framsóknarflokkurinn kemur fram eins og tvílembd ær, sem er ekki svo slæmt, eða þá að við félagarnir séum eitthvað slíkir, hvernig líður þá Samfylkingunni með að vera einhvers konar taglhnýtingur í afturhaldinu í þinginu? Samfylkingin er það alveg augljóslega þegar kemur að því að reyna að koma málum áfram í þessu samfélagi.

En hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þeirri spurningu hvers vegna í ósköpunum hann kýs að fara fram á ritvöllinn og tilkynna að forusta Samfylkingarinnar sé ónýt og að það þurfi að skipta um hana. Hvað verður til þess? Af hverju fer hæstv. ráðherra fram á völlinn og segir að tími Jóhönnu Sigurðardóttur sé liðinn og að það þurfi að skipta um forustu? Af hverju gerir hæstv. ráðherra þetta? Hann hlýtur að þurfa að segja okkur frá því. Það skiptir máli fyrir pólitíkina til framtíðar hver verður formaður í Samfylkingunni, líkt og öllum öðrum flokkum. (Gripið fram í.)