140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

rammaáætlun í virkjunarmálum.

[13:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því sem hæstv. umhverfisráðherra sagði, að ætlunin væri að standa við tímaplanið varðandi framlagningu þessa máls þannig að það má vænta þess að í byrjun næstu viku sjáum við þinglegan búning að þessari rammaáætlun.

Að öðru leyti vil ég segja að ekki hefur farið á milli mála að það hefur verið mikil togstreita milli stjórnarflokkanna, og jafnvel innan þeirra, um það hvernig nákvæmlega bæri að flokka þessa virkjunarkosti. Það hefur mjög mikið heyrst, m.a. úr flokki hæstv. umhverfisráðherra, um að það væri ástæða til að fjölga í biðflokknum og verndarflokknum og fækka þar með mögulegum virkjunarkostum. Mig rekur minni til þess að það liggi fyrir flokkslegar samþykktir frá Vinstri grænum um að það sé ekki tilefni til að fara í einhverjar málamiðlanir.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Stendur til að fækka þeim kostum sem nefndin lagði til að færu í nýtingarflokk (Forseti hringir.) og fjölga þar með í öðrum flokkum? Það er mjög mikilvægt að við heyrum þetta. Auðvitað fer hin efnislega umræða fram þegar málið er komið fram en það er eðlilegt í aðdraganda málsins að málin séu rædd líka (Forseti hringir.) á vettvangi þingsins.