140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

rammaáætlun í virkjunarmálum.

[13:51]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil bara til öryggis halda því til haga að ég ætla ekki að leggja orðstír minn að veði varðandi nákvæma dagsetningu framlagningar máls. Ég sagði að það væri líklegt að frumvarpið yrði lagt fram innan þess tímabils sem um ræðir þó að það sé ekki nákvæmlega þann dag sem hv. þingmaður nefnir.

Að því er varðar rammaáætlun erum við að tala um algjöra grundvallarbreytingu á því hvernig þessum málum er komið fyrir í samfélagsumræðunni. Við erum með því að leggja algjörlega nýjan grunn að því að færa víglínuna á nýjan stað, bæði hvað varðar náttúruverndarsjónarmið og nýtingarsjónarmið. Við erum að hasla völl nýrri sátt, samfélagssátt, og það skiptir máli að við vöndum til verka í þeim efnum. Ég geri lítið úr togstreitu innan flokka og milli flokka og tel að sú tillaga sem við (Forseti hringir.) iðnaðarráðherra leggjum fyrir þingið, þ.e. hún í samráði við mig, verði þessum málaflokki til góðs, bæði að því er varðar nýtingu og vernd.