140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til að samþykkja rammasamning um samstarf sem varðar stuðning við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs sem fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB. Sá samningur er birtur sem fylgiskjal með þessari tillögu. Hann byggir á því að Ísland á, eins og önnur umsóknarríki, kost á að sækja um framlög til að standa meðal annars straum af breytingum á stjórnkerfi eða stofnunum sem um kann að semjast eða til að byggja upp þekkingu innan íslenska stjórnkerfisins á innviðum Evrópusambandsins, þar á meðal sjóðakerfi þess. Tilgangurinn er vitaskuld sá að umsóknarríki verði í sem bestum færum til þess að tryggja hagsmuni sína gagnvart sambandinu strax frá fyrsta degi aðildar, og þá ekki bara hagsmuni okkar sem þjóðar heldur ekki síður hagsmuni einstaklinga eins og bænda varðandi greiðslur strax frá upphafi aðildar.

Öll ríki sem hafa sótt um aðild eftir 1994, auk Tyrkja, hafa skiljanlega notfært sér þetta, enda er oft um kostnaðarsamar breytingar að ræða. Ég hef sjálfur margsinnis sagt í þessum sölum að ég telji það sanngjarnt og raunar rökrétt, ef menn kjósa að hugsa þannig, að breytingar sem eru undirbúnar fyrir þjóðaratkvæði eða framkvæmdar þegar því sleppir séu kostaðar af Evrópusambandinu að stærstum hluta. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það ætti að vera stærra hlutfall en er í boði af hálfu Evrópusambandsins og gæti fært fyrir því margvísleg rök.

Þessi samningur við Ísland er þó öðruvísi en við flestar aðrar þjóðir sem hafa sótt um aðildina. Hann er miklu minni að umfangi. Ástæðan er sú að hann nær til mun færri sviða en samningar við flest önnur umsóknarríki. Hann nær þannig einungis til eins af fimm sviðum sem aðstoð er veitt til. Það er athyglisvert, frú forseti, með tilliti til þeirra umræðna sem fóru fram hér fyrr í dag millum hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og hæstv. innanríkisráðherra að ólíkt öðrum þjóðum varðar liðsinnið við umsóknarríkið Ísland fyrst og fremst styrkingu innviða stjórnsýslu í umsóknarferlinu. Af þeim sökum er, öndvert öðrum umsóknarríkjum, til dæmis ekki þörf á neinum sérstökum stofnunum til að hafa umsjón með framkvæmdinni.

Af því að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason vísaði til greina sem hæstv. innanríkisráðherra skrifaði árið 2010 er rétt að taka það fram að vitaskuld hafa menn tekið tillit til umræðna og viðhorfa sem fram hafa komið. Þetta mál er akkúrat hnýtt í þann búning að það liggur algjörlega ljóst fyrir að með engum rökum er hægt að halda því fram að hér sé verið að henda perlum, hvorki úr gleri né öðru, fyrir svín eða aðra. Og hér er ekki um neitt eldvatn að ræða. (Gripið fram í.) Þetta er gjörólíkt því sem er að finna í flestum öðrum ríkjum þar sem hafa verið þúsundir styrkja akkúrat til þess að gera það sem hv. þingmenn hafa verið að ræða hér, þ.e. að kaupa stuðning. Það er ekkert svoleiðis í gangi. Ég er sjálfur algjörlega andvígur því og hef lýst því yfir mörgum sinnum. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason getur alveg rólegur gengið til hvílu í kvöld, eins og reyndar önnur kvöld, án þess að vera hræddur um að það sé verið að sá hér einhvers konar mútufé í gegnum þennan rammasamning. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Í samningnum sem fylgir eru skýrð helstu markmið og vörður, og sett viðmið og reglur um samvinnu. Eins og hv. þingmenn sjá fylgir samningurinn tillögunni með skýringu við hverja grein. Það er einkum tvennt sem ég vildi sérstaklega skýra í þeirri veiku von að hægt sé að varpa ljósi á tiltölulega skuggalegar hugsanir ýmissa þingmanna um þetta.

Hið fyrra snýr að því að verk sem eru styrkt eru, eins og önnur útboðsskyld verk á innri markaðnum, boðin út á öllu EES-svæðinu. Þar að auki eru þessi verk líka boðin út innan umsóknarríkja eins og ég tel fullkomlega eðlilegt. Þessi útboðsskylda byggir á gagnkvæmnisreglunni. Hún gerir þess vegna líka Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum kleift að bjóða í verkefni sem eru styrkt í öðrum umsóknarríkjum. Sem betur fer hafa ýmsir landar okkar notfært sér það. Það er athyglisvert fyrir þá í þessum sal sem hafa áhuga á þeirri góðu grein landbúnaði að menn hafa gert það gagnvart landbúnaði, t.d. varðandi dýraheilbrigði, gagnvart löndum sem eru að sækja um úti í Evrópu.

Samningar á grundvelli svona útboða byggja á sömu grundvallarsjónarmiðum og liggja að baki samningum sem alþjóðastofnanir binda við gistiríki um tiltekin friðhelgisréttindi, eins og þeir vita sem hafa kynnt sér þessi mál og ég er viss um að margir hafa gert það. Þeir samningar sem byggjast á gagnkvæmni kveða á um ýmiss konar úrlendisrétt, þar á meðal undanþágur frá tollum, sköttum og öðrum opinberum gjöldum þegar starfsmenn verkefna hafa ekki búsetu hér á landi. Þetta eru eins og við vitum grundvallarreglur í milliríkjasamskiptum sem miða meðal annars að því að gera starfsemi sendiskrifstofa, alþjóðastofnana eins og Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins, til að nefna nokkur, greiðari og ódýrari. Hið sama gildir um margvíslega alþjóðlega aðstoð, eins og þróunaraðstoð. Þessi samningur hvílir á sama grundvelli.

Þess vegna kveður hann meðal annars á um nákvæmlega sama skattfrelsi og undanþágur frá greiðslu opinberra gjalda í ákveðnum tilvikum og starfsmenn alþjóðastofnana hafa notið hér á landi. Og næsta mál á dagskrá, frú forseti, það mál sem hæstv. fjármálaráðherra flytur hér á eftir, felur í sér viðeigandi breytingar að því leytinu á skattalögum.

Hinn síðari þeirra tveggja þátta sem ég taldi til varðar þá meginreglu sjóða Evrópusambandsins sem við þekkjum úr þátttöku okkar í rannsókna- og menntaverkefnum þessi 18 ár og raunar úr þátttöku Íslands í fjölmörgum alþjóðlegum sjóðum og verkefnum, að fjárframlögum til þeirra skuli að fullu varið til þeirra afmörkuðu verkefna sem þeim er úthlutað til. Þannig má nefna það til upprifjunar fyrir hv. þingmenn að íslensk verkefni sem hafa notið styrkja af rannsóknaáætlun Evrópusambandsins allt frá gildistöku EES-samningsins fyrir 18 árum sæta til dæmis þeim skilyrðum að virðisaukaskattur er almennt ekki meðal þess kostnaðar sem má krefja úr sjóðum sambandsins. Munurinn á þessum verkefnum og þeim sem hér er verið að tala um er að hér erum við að gera rammasamning en um einstök verkefni eru að jafnaði gerðir samningar sem fela þetta í sér. Framlögunum er ekki ætlað að renna til greiðslu skatta eða annars konar opinberra gjalda í því ríki sem tekur við styrkjunum. Sama meginstefna gildir um aðstoð á grundvelli þessa rammasamnings.

Í samræmi við það er í næsta máli á dagskrá leitað eftir viðeigandi lagabreytingum. Þetta er einfaldlega nákvæmlega sama fyrirkomulag um skattalega meðferð og við höfum lögfest um langan aldur varðandi þátttöku okkar í margvíslegum alþjóðlegum stofnunum og sjóðum, vitaskuld að ógleymdum sendiráðum hér á landi. Þar má nefna fjölmarga eins og hv. þingmenn þekkja, en af handahófi koma upp í hugann Norræni tækni- og iðnþróunarsjóðurinn, Þróunarsjóður fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland, olíumengunarsjóðurinn frá 1979, Norræna einkaleyfastofan, jafnvel Evrópusamningurinn gegn pyndingum. Ég var búinn að nefna EES og vaskinn.

Ég minnist þess að í fyrra kláruðum við samninginn um Evrópustofnun um meðallangar veðurspár sem höfðu nákvæmlega sömu skattalegu ákvæði. Ef út í það er farið mætti vitaskuld nefna ógrynni alþjóðlegra samninga sem Ísland hefur gerst aðili að á síðustu áratugum sem lúta einmitt að frjálsri för og skattalegum réttindum. Þeir skipta tugum. Þessi samningur felur þess vegna ekki í sér neina nýlundu að þessu leyti. [Kliður í þingsal.]

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að þegar umræðunni sleppir hér í dag verði þessu máli vísað til hv. utanríkismálanefndar. Ég teldi rétt að hún vísaði málinu líka til efnahags- og viðskiptanefndar til skoðunar.