140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitthvað var hæstv. utanríkisráðherra stressaður þegar hann kynnti þetta mál til sögunnar og vísaði til ýmissa verkefna um smástyrki sem við höfum tekið á móti varðandi skattfríðindi. (Gripið fram í.) Mig langar til að benda á að hæstv. utanríkisráðherra er að tala fyrir gríðarlegum upphæðum. Samkvæmt þessari þingsályktunartillögu er um það að ræða að Íslendingar séu að taka á móti 30 milljónum evra sem samsvarar um 5 milljörðum kr. á tímabilinu 2011–2013.

Frú forseti. 5 þús. milljónir! Hvernig getur hæstv. utanríkisráðherra sagt að hér sé um smáupphæðir að ræða? Hvernig er hægt að segja í sama orði að ekki sé um aðlögun að Evrópusambandinu að ræða? Í þriðja lagi: Ætlar hæstv. utanríkisráðherra að nota þetta (Forseti hringir.) hér einungis í EES-stofnanir?