140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að benda á að hæstv. utanríkisráðherra ber þá 5 milljarða sem á að taka á móti hér næstu tvö ár saman við smástyrki sem Íslendingar hafa tekið á móti. Þetta er allt saman skattfrjálst og tollfrjálst og raunverulega koma engar tekjur á móti þessu inn í ríkissjóð í formi skattgreiðslna. Þetta hvetur til þess að erlendir aðilar vinni þau verkefni sem á að vinna fyrir þessa upphæð vegna þess að þá nýtist peningurinn betur.

Ég spyr aftur: Ætlar hæstv. utanríkisráðherra að nota þessar 5 þús. milljónir einungis til að styrkja EES-stofnanir hér á landi, eins og Umhverfisstofnun og þessi EES-batterí, eftirlitsstofnanir sem EES-samningurinn hefur komið hér á fót, eða á að nota þetta í eitthvað annað?

Mig langar að benda á það, frú forseti, að nú þegar hafa verið lögleiddar heimildir (Forseti hringir.) fyrir 596 milljónir í fjárlögum 2012 þannig að sú lagaheimild var raunverulega (Forseti hringir.) eins og fjáraukalög, svo mikið lá á að taka úr þessum 5 milljarða potti.