140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú upphæð sem hv. þingmaður vísar til var vegna sérstaks málaflokks sem meiri hluti utanríkismálanefndar lagði í áliti sínu sérstaka áherslu á. Það var ekkert óeðlilegt við það.

Hv. þingmaður fer hér mikinn og talar um að þetta séu svo gríðarlega háar upphæðir. Heldur hv. þingmaður að það hafi aldrei komið fyrir áður að slíkar upphæðir hafi með þessum hætti farið í gegnum íslenska hagkerfið? (Gripið fram í.) Veit ekki hv. þingmaður að Framsóknarflokkurinn stóð meðal annarra að því að NATO kom hingað, Atlantshafsbandalagið, bandaríski (Gripið fram í.) herinn? Ég er að bera það saman, já. Þetta varðar aðild okkar að alþjóðlegu bandalagi og það er alveg fullkomlega eðlilegt að bera það tvennt saman.

Síðan spyr hv. þingmaður hvort ég ætli bara að nota þetta í EES-stofnanir. Svarið er nei. Ég ætla ekki að nota þetta eitt eða neitt, það er ríkisstjórnin og eftir atvikum Alþingi sem ákveður hvert fjármagnið fer. En ég tel, eins og ég hef margsinnis sagt hérna, að það eigi að fara í að styrkja innviði stjórnsýslunnar í aðdraganda og eftir. (Forseti hringir.) (VigH: Eftir hvað?)