140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. utanríkisráðherra bendir réttilega á fellur rammasamningurinn úr gildi ef Alþingi fellir þennan samning. Þá sýnist mér að sérstök fjárveiting og sérstök heimild Alþingis í þau verkefni sem búið er að samþykkja lendi á íslenskum skattgreiðendum. Það er væntanlega það sem hæstv. ráðherra er að segja. Ég bið hann að útskýra það. Ef hæstv. ráðherra fær ekki heimild til að taka við þessum styrkjum lendir það væntanlega á íslenskum skattgreiðendum.

Það er annað sem ég átta mig ekki á í þessu samhengi. Það er vísað til þess að þetta séu sömu reglur og aðrar alþjóðastofnanir hafa og ég skil þær mætavel. Þegar maður skoðar hins vegar verkefnin, bæði á landsáætluninni og líka þessi sjö sem búið er að samþykkja, eða sex þegar Matís er hætt, virðast þau öll vera innlend. Það eina erlenda er að tilteknir eru einhverjir vinnufundir embættismanna hingað og þangað.

Það er eitthvað (Forseti hringir.) við þetta allt saman sem ég botna ekki í. Gæti hæstv. ráðherra útskýrt betur fyrir mér tengslin við alþjóðastofnanir (Forseti hringir.) og sendiskrifstofur?