140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað eru þetta allt öðruvísi styrkir en þeir fjármunir sem koma í gegnum áætlanir sem Íslendingar kaupa sig inn í og eru aðilar að svo dæmi sé tekið. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki vitlaus röð á öllum málum í þessari umsókn og þessu ferli öllu saman. Við erum í einhverju umsóknarferli, við þiggjum styrki til þess að laga okkur að ferlinu eða til þess að vera tilbúin ef samningur er gerður — af hverju í ósköpunum er ekki gerður samningur? Síðan geta menn þá tekið við styrkjum til að breyta því sem breyta þarf.

Ég held að svarið sé að Evrópusambandið setur þau skilyrði að þetta sé gert svona. Og af hverju setur Evrópusambandið þetta sem skilyrði? Það er vegna þess, og hæstv. ráðherra kom í rauninni inn á það í ræðu sinni, að 1994 var aðferðafræðinni breytt. Af hverju var henni breytt? Það var vegna þess að Norðmenn felldu samning. Síðan hefur enginn samningur verið felldur. Síðan hefur ekkert ríki hafnað því að ganga í Evrópusambandið eftir því sem ég (Forseti hringir.) best veit.

Ég spyr því ráðherra hvort hann geti verið sammála mér um að þetta sé ein ástæðan fyrir því að þessu var breytt og að ferlið sé svolítið öfugsnúið.