140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég get sagt um upphaf þessarar liðveislu er svo sem harla lítið. Ég veit hins vegar að þegar Austur-Evrópuþjóðirnar og Mið-Evrópuþjóðirnar, þær sem áður höfðu tilheyrt áhrifasvæði hinna föllnu Sovétríkja, tóku að sækja um var svo mikill brestur í innviðum þeirra, og ekki síst í stjórnsýslu, að þá var gefið mjög hressilega í með þessa styrki. Þá voru tekin upp miklu fleiri svið. Við Íslendingar hefðum til dæmis getað sótt um liðveislu á fleiri en þessu eina sviði sem við gerum. Ég keyrði í fyrra eftir magnaðri hraðbraut í Króatíu sem var greidd af Evrópusambandinu. Þeir sem eru að pæla í Vaðlaheiðargöngum kynnu að hafa viljað að við sæktum líka um (Forseti hringir.) innan þess sviðs.

En ég er bara að svara hv. þingmanni, það varð til þess að styrkja betur innviði þeirra þjóða sem voru þá að sækja um og það vill svo til að þetta kerfi (Gripið fram í.) stendur okkur líka til reiðu, en við (Forseti hringir.) höfum kvölina og völina gagnvart því að taka við því eða hafna því.