140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. innanríkisráðherra lýsti þessum styrkjum sem ógeðfelldum og sagði að þeir væru ætlaðir til þess að embættismenn og aðrir mundu ánetjast fundum, flugferðum og ferðalögum um heiminn. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli. Við horfum upp á hann berjast hér af mikilli hörku fyrir því að ná í gegn málum sem samþykktir funda samstarfsflokksins hafa hafnað, og ég hygg að farið verði yfir í ræðum nú á eftir, þvert gegn þjóðarvilja. Hann er meira að segja búinn að ná því í gegn að einmitt formaður utanríkismálanefndar og formaður samstarfsflokksins eru í þessum ferðalögum og eru að ánetjast þessum flugferðum.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra hvort það sé ekki áhyggjuefni fyrir þjóðina hversu vel hæstv. utanríkisráðherra gengur að ná fram sínum stefnumálum, að við skulum horfa upp á það að (Forseti hringir.) embættismenn og stjórnmálamenn eru á samfelldum ferðalögum fyrir milljarða króna á meðan skorið er niður í heilbrigðiskerfinu. Er ekki áhyggjuefni fyrir þjóðina hversu vel hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) gengur að ná fram stefnumálum sínum?