140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Enginn getur svarað síðustu spurningu hv. þingmanns betur en hann sjálfur. Hann hefur ítrekað lagt fyrir mig spurningar um ferðakostnað í ráðuneyti mínu. Það kom í ljós að á fyrsta ári mínu í ráðuneytinu reyndist ferðakostnaðurinn þar einungis þriðjungur af því sem hann hafði að meðaltali verið í þrjú ár á undan. Það er ekki hægt að segja að þetta ráðuneyti bruðli mikið með ferðir, allra síst ef haft er í huga að það fer með utanríkismál.

Sömuleiðis tek ég skýrt fram að liður í fjárhagsáætlun vegna kostnaðar við umsóknina sem lýtur að ferðalögum er meira en innan marka, bara svo það komi algjörlega skýrt fram.

Hv. þingmaður vísaði síðan í orðastað sinn við hæstv. innanríkisráðherra þar sem þeir köstuðu á milli sín einhverjum greinum sem voru skrifaðar 2010. Það var tekið tillit til þessara viðhorfa. Hv. þingmaður var einu sinni í öðrum stjórnmálaflokki sem gerði landsfundarsamþykkt. Sá rammasamningur og útfærsla hans, t.d. í meðförum ráðherranefndar sem hefur verið kynnt í utanríkismálanefnd, er í samræmi (Forseti hringir.) við landsfundarsamþykkt VG, (Forseti hringir.) það er nú ekkert öðruvísi en svo.

Hins vegar er hv. þingmaður kominn í annan stjórnmálaflokk (Forseti hringir.) og má vera að það eigi eftir að saumfæra hvort áætlunin falli líka (Forseti hringir.) að landsfundarsamþykktum hans.