140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér rekur sig hvað á annars horn. Hv. þingmaður kvartar undan samdrætti og niðurskurði í efnahagslífinu en samt sem áður fúlsar hann við því að inn í samfélagið komi 6 milljarðar kr. og auki veltu þess. (Gripið fram í.) Menn verða að hugsa rökrétt.

Mér er algjörlega kunnugt um og ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður deilir með hæstv. innanríkisráðherra um glerperlur og eldvatn. (Gripið fram í.) Ég verð að segja við hv. þingmann að þessari liðveislu (Gripið fram í.) á grundvelli (Gripið fram í.) þessa rammasamnings er öðruvísi farið. Ég er að reyna að tyggja það ofan í þennan ágæta vin minn, herra forseti, að við sækjum einungis liðveislu í eitt svið af fimm. Þetta fer fyrst og fremst í það að styrkja innviði stjórnsýslunnar. Ég hef talið upp nokkur dæmi um það. Ef hv. þingmaður telur að dauðir hlutir eins og tölvur, hugbúnaður eða hús geti kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni (Forseti hringir.) er hann skyggnari en ég.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni, (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) herra forseti, fyrir fögur orð í minn garð.