140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er hálfsorglegt að hlusta hér á rök hæstv. utanríkisráðherra þegar hann þarf að telja það upp að hvorki tölvur né húsgögn geti kosið. Ég bendi á að sjúklingar og eldri borgarar þurfa að kjósa. Það er akkúrat í þeim málaflokki sem vinstri velferðarstjórnin hefur skorið hvað mest niður.

Hæstv. utanríkisráðherra segir að þingmenn séu vanþakklátir yfir því að hingað berist 5 milljarðar inn í landið. Hæstv. utanríkisráðherra telur að það séu 6 milljarðar en í frumvarpi sem hæstv. fjármálaráðherra leggur fram stendur að það séu (Gripið fram í.) 5 milljarðar. Sé 1 milljarður þarna einhvers staðar á milli er það gleðilegt, en þessir peningar skila sér ekki til landsmanna. Þessir peningar skila sér inn í hinar kratísku stofnanir sem EES-samningurinn hefur leitt af sér hér á landi, eins og Náttúrufræðistofnun og fleiri slíkar stofnanir.

Þess vegna, herra forseti, er spuninn hér hjá hæstv. utanríkisráðherra hreint algjör.

Við sjáum núna hvers vegna var svo brýnt að skipta um fjármálaráðherra. Jú, það þurfti að koma samfylkingarmaður í fjármálaráðherrastólinn til að leggja fram frumvarp um að hægt sé að breyta skattalögum og tollalögum til þess að hægt sé að taka á móti þessum styrkjum. Ég hugsa að hæstv. núverandi ráðherra sem ber fjóra starfstitla hefði tæpast getað gert sínum félagsmönnum það að sitja sem fjármálaráðherra og leggja fram þetta frumvarp.

Fréttir dagsins eru þær að núna er tækifæri til að fella ESB-samninginn. Eins og hæstv. utanríkisráðherra fór yfir er rammasamningurinn í uppnámi verði þessi þingsályktunartillaga felld og íslenska ríkið þarf sjálft að grípa sinn í og greiða fyrir þau verkefni sem Evrópusambandið er nú að bera pening í eigi að halda umsókninni áfram.

Það finnast hvergi í tómum ríkissjóði 5 eða 6 milljarðar til að leggja í þessar stofnanir. Sem dæmi má nefna var rætt um það fyrir jólin að það þyrfti að bæta við 2 milljörðum hjá tollstjóranum þegar upp yrði staðið. Hvernig ætlar þessi ríkisstjórn að réttlæta það að leggja enn meira fé í ESB-umsóknina þegar nú þegar hefur verið reiknað að farnir séu á milli 5 og 12 milljarðar eftir því hvað er reiknað inn í?

Inni í hærri upphæðinni er til dæmis sá styrkur til þróunarsjóðs EFTA sem hæstv. utanríkisráðherra gekk hér fram með fyrir þarsíðustu jól og lét lögbinda, 7,8 milljarðar á fimm árum lögbundnir í dýrmætum gjaldeyri.

Ég ætla að ræða aðeins þingsályktunartillöguna sem hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir.

Í fyrsta lagi er þetta einkennileg forgangsröðun hjá þessari ríkisstjórn, en það kemur svo sem ekki á óvart. Ég var ásamt þremur öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins í Háskólabíói í gær þar sem var ákall til ríkisstjórnarinnar um að gera eitthvað í verðtryggingu húsnæðislána. 60 þús. heimili eiga ekki fyrir skuldum, þau skulda meira en þau eiga í íbúðinni og eru raunverulega gjaldþrota. Nei, þá skulum við á Alþingi ræða á nýju ári Evrópusambandið og styrkveitingar frá því. Þetta er eins og annað hjá þessari ríkisstjórn.

Hér hefur verið farið yfir markmiðið með IPA-styrkjunum, en það er að styrkja innviði umsóknarríkja í ESB með uppbyggingu stofnana, eflingu milliríkjasamstarfs og styrkingu efnahags- og félagslegrar þróunar, sem og byggðaþróunarumsóknar ríkjanna. Þessir peningar fara eins og ég sagði áðan allir inn í opinbera geirann.

Í öðru lagi er gaman að kíkja á það — eða náttúrlega ekki gaman, það er sorglegt að horfa á að hér er gefið eftir með alla skatta, virðisaukaskatt og önnur gjöld. Þetta fjármagn kemur ekki til með að skila sér neitt inn í landið að þessu leyti, í tóman ríkissjóð. Það er litið svo á að það sé gjaldfrítt inn. Þetta hvetur mjög til þess að þeir aðilar sem koma til með að fá atvinnu við að styrkja þessar stofnanir verða meira og minna erlendir. Hlunnindin vegna þeirra eru mikil og þetta nær ekki til íslenskra aðila. Það kemur alveg skýrt fram í kaflanum á bls. 4 eins og sjá má. Með leyfi forseta ætla ég að vísa í þessa greinargerð:

„Persónulegir munir og búslóð nánustu fjölskyldu einstaklinga sem ráðnir eru á grundvelli samninga um tæknilega aðstoð skal við innflutning undanþegin tollum, aðflutningsgjöldum, sköttum og öðrum gjöldum, enda sé hún flutt aftur út þegar samningssambandinu lýkur eða eyðilögð. Þeir sem samið er við á þessum forsendum, aðrir en staðarráðnir, skulu njóta sömu eða sams konar réttinda og annað starfslið eða verktakar sem veita tæknilega aðstoð á grundvelli tví- eða marghliða samninga.“

Svo kemur hér rúsínan í pylsuendanum. Hér stendur:

„Í því felst þó ekki að þeir skuli njóta diplómatískra réttinda.“

Hér er verið að færa yfir á starfsmenn þessara aðila Evrópusambandsins sem koma hingað til að vinna að fyrirliggjandi áætlunum diplómatísk réttindi um að greiða inn í ríkissjóð og með flutninga til landsins.

Ég lít þetta mjög alvarlegum augum. Utanríkisþjónustan ein á að hafa þessi réttindi en hér er verið að útvíkka þann skilning sem utanríkisþjónustan hefur hingað til staðið fyrir.

Ég geri líka athugasemd við þann kafla sem snýr að framkvæmd verkefna. Í 8. gr. samningsins kemur fram að framkvæmdastjórnin sjálf skuli annast stýringu á aðstoðinni við Ísland. Það kemur til af því að aðstoð við Ísland er í samanburði við umsóknarríki afar takmörkuð. Þá er það til einföldunar og hagræðingar að framkvæmdastjórnin sjálf muni annast þessa umsjón og gera fjármögnunarsamning við hinn svokallaða styrkþega, þ.e. íslenskar stofnanir, en það er til þess að þetta fyrirkomulag leiði til þess að ekki þurfi að stofna nýjar stofnanir innan stjórnkerfisins til að sjá um slíkt verkefni sem hefur verið venja í öðrum ríkjum sem hafa sótt um hjá Evrópusambandinu. Atvinnuuppbygging hér á landi vegna þessara styrkja er engin. Framkvæmdastjórnin tekur hér fram fyrir landsrétt að því leyti og tekur sér vald sem samkvæmt samningum hefur venjulega verið hjá ríkinu.

Það er alveg sama hvar litið er á þennan samning, allt er á eina bókina lært, Evrópusambandið hagnast á því og ekki Íslendingar. Við hefðum svo sannarlega þurft að skapa hér fleiri störf þótt opinber væru, en ég hvet þingmenn til að fella þessa þingsályktunartillögu og stíga út úr þessu.

Að lokum, herra forseti, langar mig til að vísa í kaflann um ágreining við þriðja aðila. Þegar ég las hann fékk ég hálfgerðan kuldahroll niður bakið, þetta minnir svo mjög á hinn „glæsilega“ samning Svavars Gestssonar í Icesave-málinu. Þarna viðurkennir íslenska ríkið að Evrópusambandið njóti friðhelgi gagnvart lögsókn hér á landi gagnvart þriðja aðila. Í þessum kafla og samkvæmt 19. gr. samningsins skuldbindur Ísland sig til þess að standa með Evrópusambandinu í málarekstri, að samtvinna sig sambandsríkinu ESB og standa með því í málarekstri sem hugsanlega kynni að rísa hér, t.d. vegna íslensks einstaklings eða íslensks fyrirtækis. Þarna eru stjórnvöld, þessi verklausa ríkisstjórn, að framselja dómsvaldið til Evrópusambandsins, framselja friðhelgisréttindi Íslendinga.

Herra forseti. Það er svo sannarlega ekki í fyrsta sinn sem við alþingismenn sjáum þetta ákvæði eins og ég vísaði í áðan með Icesave-samninginn. Það var fyrir dug og þor þingmanna Framsóknarflokksins sem sá samningur náði ekki í gegn. Þá var bent á að ríkisstjórnin væri að framselja þau réttindi. Það er alveg sama hvar borið er niður hjá þessari ríkisstjórn, hagsmunir landsins og þjóðarinnar skipta ekki máli. Það skal keyrt með þjóðina inn í Evrópusambandið. Hér skal tekið við á milli 5 og 6 þús. milljónum til að byggja upp (Forseti hringir.) eftirlitsiðnaðinn eins og hann hafi nú staðið sig vel (Forseti hringir.) hingað til hér á landi.

Herra forseti. Ég hef ekki lokið máli mínu og óska því eftir að komast aftur á mælendaskrá.