140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Heimspekin og eðlisfræðin vefja sig saman í tilgátunni um samhliða alheima. Það er eins og að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sé stödd í einhverjum allt öðrum heimi en ég. (Gripið fram í.) Hún segir að ég hafi haldið því fram að þessir peningar gangi til heilbrigðiskerfisins. Ekkert er fjær mér en að ég hafi sagt það. Ég vildi óska að eitthvað af þeim gerði það, en því miður er ekki um það að ræða.

Þeir fjármunir sem hingað koma nýtast hins vegar til þess að styrkja innviði stjórnsýslunnar gagnvart því til dæmis að koma hér upp greiðslukerfi fyrir landbúnaðinn þegar að því kemur að þjóðin segi já við samningnum og við höfum síðan fullgilt hann. Þá þarf allt að vera til reiðu til að þær greiðslur geti gengið snurðulaust fyrir sig. Þess vegna fáum við með þökkum liðveislu af þessu tagi eins og aðrar þjóðir hafa gert.

Ef þjóðin hafnar samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ég tel að verði ekki er það Evrópusambandið sem ber áhættuna af því. Við þurfum ekki að greiða þetta til baka. Það er það sem skiptir máli. Með öðrum orðum erum við ekki að taka neina fjárhagslega áhættu eins og mátti skilja af orðum hv. þingmanns í fyrra andsvari hennar. Svo er ekki.

Herra forseti. Auðvitað kann að vera að mönnum sé illa við þennan samning vegna þess að þeir eru almennt á móti Evrópusambandinu. Það er bara fullkomlega lögmæt skoðun. Menn mega vera það mín vegna. Ég er það ekki. Hitt liggur fyrir að eins og öll önnur umsóknarríki eigum við kost á liðveislu af þessu tagi. Við höfum þegið hana. Það er ekkert að því, það er sanngjarnt og eðlilegt að akkúrat Evrópusambandið taki þátt í að styrkja innviðina með (Forseti hringir.) þessum hætti.