140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hans. Margir hv. samfylkingarþingmenn eru komnir út í horn og orðnir rökþrota í Evrópuumræðu sinni vegna þess að sífellt þrengir að þeim, þeim fækkar sem styðja þetta ferli. Þjóðin stendur ekki á bak við það, flokkurinn er að minnka. Ég vil því byrja á því að segja að allt tal um einangrunarhyggju á ekki við nokkur rök að styðjast. Lítum bara á þau hagkerfi sem eru að rísa í heiminum í dag, Kína o.fl. Við þurfum að horfa miklu víðar á hlutina og það er einmitt þessi þrönga nálgun sem virðist vera vandamálið hjá mörgum hv. þingmönnum.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir það hversu vel hann fór yfir það að hér er einmitt um aðlögunarferli að ræða. Hluti af því aðlögunarferli er að taka við styrkjum til að smyrja kerfið og gera breytingar á löggjöfinni á samningstímanum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki verið rétt skilið hjá mér að hann telji að ferlið sé þannig upp byggt (Forseti hringir.) að við eigum að ráðast í lagalegar breytingar og annað slíkt og undirbúa okkur (Forseti hringir.) undir aðild og að eðlilegt sé að fá fjármagn til þess, hvort það sé (Forseti hringir.) ekki hluti af Evrópusambandsferlinu.