140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:13]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur skýrt fram í tillögunni að farið er að gagnkvæmnissamningum þegar kemur að alþjóðastofnunum eins og viðhafðir eru þegar þjóðir koma upp sendiráðum í öðrum löndum. Hér er farið eftir sömu reglum, þær eru gagnkvæmar. Ég trúi því ekki að viðkomandi þingmaður sem stóð í pontu á undan mér sé talsmaður þess að við afnemum þær reglur og þá undanþágu þegar kemur að alþjóðastofnunum eins og Atlantshafsbandalaginu, sendiráðum og ýmsum alþjóðastofnunum sem eru hér á landi og við eigum aðild að úti í heimi, þegar kemur að sköttum og skyldum. Þetta er regla sem gilt hefur í alþjóðlegum samskiptum milli ríkja um áratugaskeið og hefur verið virt af öllum. Ég sé enga ástæðu til að vera með sérreglur þegar kemur að þessari alþjóðastofnun.