140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:16]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um í fyrra andsvari mínu er einfaldlega verið að fara að gagnkvæmnissamningum. Eins og fram kemur á bls. 4 í greinargerð með þingsályktunartillögunni er það sama regla og gildir almennt um starfsmenn sendiráða og alþjóðastofnana á Íslandi og íslenskt starfslið alþjóðlegra stofnana í öðrum löndum.

Ef við færum öðruvísi með IPA-styrkina hvað þetta varðar þyrftum við jafnvel að nota aðrar og nýjar reglur á íslenska starfsmenn alþjóðastofnana í öðrum ríkjum þannig að ég tel að við séum einfaldlega að fara eðlilegustu leiðina í þessu efni með því að nota sambærilegar reglur og gilda um annað alþjóðastarf innan samningsins. Það væri að mínu viti óeðlilegt að búa til nýjar reglur þegar kemur að einni alþjóðastofnun en láta aðrar reglur gilda um allar aðrar alþjóðastofnanir.