140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir þessi ræða nú með ólíkindum. Það er eins og frjáls viðskipti verði afnumin á Íslandi eftir að við göngum í Evrópusambandið, þegar og ef. Auðvitað eru þetta samningar og þetta er einmitt mergurinn málsins. Við erum í samningaferli. Við erum að athuga hvað við fáum út úr þessum samningi. Þegar því samningaferli er lokið þá getum við tekið efnislega umræðu um það hvort það sem við fáum er nógu gott eða er ekki nógu gott.

Ég tel að íslenskum hagsmunum sé best borgið með því að eiga sem mest samstarf við þá sem við skiptum mest við. Þar séu hagsmunir almennings, þar séu hagsmunir neytenda, þar séu hagsmunir fyrirtækja.

Utanríkisviðskipti okkar við Kanada, af því þau voru nefnd hér utan úr sal, eru 1% á móts við 70% við Evrópusambandið. Ég tel því að það séu meiri hagsmunir fyrir minni að skipta við Evrópusambandið upp á 70% en upp á 1% við Kanada.