140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið hressileg umræða og ég verð nú að segja hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni það til hróss að þar talar maður sem er sannfærður um ágæti Evrópusambandsins. Ég er ekki sammála honum í því en það hefur oft og tíðum skort í þessa umræðu þannig að ég fagna því að hér sé kominn talsmaður sem trúir á fyrirheitna landið. Ég er ósammála þingmanninum um þetta atriði og varðandi umræðuna sem hér hefur staðið, um einangrunarhyggju eða ekki og hvort við séum partur af Evrópu eða ekki — auðvitað erum við partur af Evrópu. Ég er sannfærð um að við getum verið góðir Evrópubúar hér eftir sem hingað til þrátt fyrir að vera ekki aðilar að Evrópusambandinu. En það er önnur saga.

Hv. þingmaður sagði að samningurinn við ESB gæti leitt til þess að Ísland batni. Hvað þarf að vera í samningnum til að Ísland batni að mati þingmannsins?