140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu snýr að samþykkt samnings sem gerður var af hálfu ríkisstjórnar Íslands 8. júlí í sumar. Nú er kominn 24. janúar 2012 og það er því liðið rúmt hálft ár síðan samningurinn var gerður.

Mín fyrsta spurning, sem ég náði ekki að varpa til hæstv. utanríkisráðherra í andsvari áðan en vil gjarnan varpa fram nú og vona að hann geti annaðhvort svarað í andsvari við mig eða í ræðu í lokin, er: Af hverju kom ekki þessi þingsályktunartillaga og það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra á eftir að mæla fyrir fram á haustþingi? Af hverju var þetta ekki lagt fram og fengin samþykkt svo fljótt sem auðið var eftir að samningurinn var gerður? Það sem slær mig er að byrjað er á öfugum enda. Það er skrifað undir þennan samning í júlí og fjármunir voru veittir í þessi verkefni í fjárlagafrumvarpi sem var afgreitt fyrir árið 2012, yfirstandandi ár.

Það kom fram í andsvari hæstv. utanríkisráðherra við mig fyrr í umræðunni að ef svo færi að þingsályktunartillagan yrði felld og þar með samningurinn mundi þessi kostnaður lenda á íslenskum skattgreiðendum. Þess vegna hefði ég talið hyggilegra af hæstv. ríkisstjórn að leggja þetta mál fram áður en fjárlögin voru samþykkt. Með fullri virðingu fyrir hæstv. ríkisstjórn þá hefur stundum reynt á stjórnarmeirihlutann og miðað við hvernig hæstv. innanríkisráðherra talaði í morgun er greinilegt að um þetta er ekki einhugur í ríkisstjórn frekar en um svo margt annað.

Það er ákveðin hætta á því að málið falli. Hvað gerist þá? Þá er búið að skuldbinda 590 og eitthvað millj. kr. í þessari umferð sem lenda á íslenskum skattgreiðendum. Þá segir hæstv. utanríkisráðherra: Þetta eru allt saman svo góð mál. Það er svo mikilvægt að við lagfærum tollafgreiðslukerfið að skaðinn verður enginn þótt það lendi á íslenskum skattgreiðendum.

Náttúrustofa, Náttúrufræðistofnun, Háskólafélag Suðurlands og öll þessi góðu verkefni er eitthvað sem við hefðum hvort eð er gert.

Spurningin er alltaf þessi: Hvernig ráðstöfum við takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs? Það hefur ekki farið svo lítið fyrir því í umræðum á Alþingi að allt snúist um forgangsröðun. Ef það færi svo að samningurinn yrði felldur er forgangsröðun íslensku ríkisstjórnarinnar sú að meira liggi á að byggja upp nýtt tollkerfi en halda úti heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni svo dæmi sé tekið. Það er það sem ég er að gagnrýna. Við getum haft ólíkar skoðanir á Evrópusambandinu. Ég ætla ekki að rekja skoðanir mínar á því, hæstv. ráðherra eru þær vel kunnar. Þetta ferli í samningaviðræðunum er ekki eins og vel smurð vél. Mér heyrist meira að segja hæstv. utanríkisráðherra vera að missa sjálfstraustið í umræðunni um þetta mál sem hann hefur þó haft nóg af hingað til. Hann mætir kannski meiri andstöðu innan ríkisstjórnarinnar og frá stjórnarandstöðunni en hann gerði ráð fyrir. En hvaða skoðun sem við höfum á aðild að Evrópusambandinu finnst mér að hæstv. utanríkisráðherra þurfi að skýra af hverju þessi þingsályktunartillaga og frumvarp fjármálaráðherra sem við ræðum á eftir kemur fyrst fram núna. Af hverju var ekki byrjað á því að leita heimildar þingsins til að staðfesta þennan samning áður en þjóðin varð skuldbundin og íslenskir skattgreiðendur í fjárlögum til að taka á sig skuldbindingar sem lentu á henni ef til þess kæmi að samningurinn yrði felldur? Þetta finnst mér að hæstv. ráðherra beri skylda til að skýra í þessari umræðu.

Við munum taka þessa þingsályktunartillögu til umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd þar sem ég á sæti. Ég fæ því tækifæri til að skoða hana og velta henni fyrir mér í störfum nefndarinnar en í upphafi voru þetta þau atriði sem ég vildi gera að umtalsefni og óska eftir að hæstv. ráðherra skýrði síðar í umræðunni.