140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum annað af tveimur málum í dag er varðar þessa svokölluðu IPA-styrki. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings og er svo sem ýmislegt í þeim samningi sem vekur spurningar og margar hafa verið reifaðar í dag. Að sumu leyti virðist vera að skapa eigi ákveðnum aðilum er vinna í umboði Evrópusambandsins einhver sérkjör eða sérumhverfi hér á landi og er það rökstutt m.a. með því að það sé venja þegar alþjóðastofnanir eiga í hlut. Væntanlega er þá átt við að það gildi einnig um erlend ríki og þess háttar en ég velti því fyrir mér hver sé sú alþjóðastofnun sem átt er við í þessu tilviki, hvort það sé framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og hvort hún teljist þá alþjóðastofnun eða hvort það er Evrópusambandið í hlutverki þess sem er í forsvari fyrir þau ríki sem að því koma. Þá vil ég vekja athygli á því að Evrópusambandið rekur hér einhvers konar sendiráð og fær væntanlega þá fyrirgreiðslu sem sendiráð fá hér. Þá er spurning hvort þetta eigi ekki hreinlega heima þar undir fyrst það þarf að fara að í gegnum þetta ferli allt saman.

Það er mjög sérstakt að ræða hér einhverja fyrirgreiðslu sem snýr að því að dæla inn hundruðum milljóna kr. og milljörðum kr. á örskömmum tíma til Íslands til að aðlaga íslenska stjórnsýslu, íslenskan raunveruleika að Evrópusambandinu í miðju samningaferli. Það er algerlega öfugsnúið. Ef allt væri með felldu ættum við að sjálfsögðu að fara í samningaviðræður og fá úr því skorið hvort grundvöllur sé fyrir samningi, fara með hann í atkvæðagreiðslu og sjá svo til hvort samningurinn verður samþykktur eða ekki. Þá taka mögulega við breytingar og þá eiga að koma styrkir frá þessu batteríi til að breyta stjórnsýslu og öllu slíku. En það er óeðlilegt að gera það fyrir fram og á meðan á samningaviðræðum stendur.

Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er hundruðum milljóna dælt í ýmis verkefni sem auglýst eru upp sem samstarfsverkefni eða sem sótt er um styrki fyrir á þeim forsendum, fjallað er um það í fjölmiðlum, jafnvel eftir að fjölmiðlamenn eru búnir að fara í lúxusferðir til Brussel þar sem vel er gert á við þá öllum sviðum. Þá er eðlilegt að menn spyrji sig hvort það sé eðlilegt jafnræði í því að draga upp einhverja glansmynd af þessum styrkjum og því sem þeir skila inn þegar ferlið er á þeim stað sem það er í dag.

Fram kemur í þessari þingsályktunartillögu að samningurinn sé í sambandi við regluverk Evrópusambandsins. En ekki hvað? Það er Evrópusambandið sem dælir inn þessum peningum og við hljótum að hafa þurft að taka við þeim samningi eða sams konar samningi og aðrir fjalla um vegna þess að varla fara þeir að láta okkur hafa fjármuni eftir samningi sem kemur frá okkur, það getur varla verið. Erum við þá ekki komin á þann stað þar sem samningaferlið er í dag? Erum við ekki í rauninni að taka við samningum og við því sem Evrópusambandið vill rétta okkur í þeim málefnum? Eftir því sem ég best veit er ekki farið að reyna á neitt sem getur steikt þessa svokölluðu viðsemjendur okkar.

Í dag var aðeins rætt um breytingar sem urðu eftir 1994 þegar síðast var felldur samningur um aðild að Evrópusambandinu. Auðvitað er eðlilegt að þegar búið er að eyða mikilli orku í slíkt breyti menn starfsháttum og er þetta hluti af því. Hins vegar kom nokkuð merkilegt fram í ræðu hæstv. innanríkisráðherra Ögmundar Jónassonar í dag þegar hann svaraði fyrirspurn hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar þar sem hæstv. ráðherra ræddi um stofnanaveldið. Hverjir eru það sem sækja í þessa styrki? Eru það ekki einhverjar stofnanir og ráðuneyti sem sækja um styrk fyrir einstök verkefni og þess háttar? Hæstv. innanríkisráðherra sagði í ræðustóli í dag, með leyfi forseta:

„Hvernig stendur á því að alltaf þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins, það er mjög algeng regla, er stofnanaveldið, hvort sem það er verkalýðshreyfing, atvinnurekendasamtök eða stjórnsýslan, hlynnt (Forseti hringir.) en almenningur á móti? Það er vegna þess að það er búið að fara með flugvélafarma viku eftir viku, mánuð eftir mánuð (Forseti hringir.) út til Brussel þar sem menn halda við (Forseti hringir.) á kostnað ríkisins. Þetta fólk ánetjast (Forseti hringir.) Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir, (Forseti hringir.) fleiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þetta sem er að gerast, það er þess vegna sem stofnanaveldið (Forseti hringir.) ánetjast Evrópusambandinu.“ (Gripið fram í.)

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að þarna talar innanríkisráðherra, ráðherra sem hefur væntanlega góða yfirsýn yfir stóran hluta af viðræðuferlinu í þessu svokallaða stofnanaveldi. Það er því mjög mikilvægt að halda þessu til haga. En hæstv. ráðherra segir líka, með leyfi forseta:

„Margir fagna peningum sem hingað koma en þetta er náttúrlega veruleikinn. Það er einhver sem borgar og það yrðum við sem borguðum ef við gengjum í Evrópusambandið.“

Svo kemur líka fram að innanríkisráðherra stendur gegn styrkjum sem hann telur óeðlilega. Það er full ástæða til þess að við fáum yfirlit yfir alla þá styrki sem þegnir hafa verið og hverju hefur verið hafnað, hvað það er sem Evrópusambandið hefur boðið okkur en við hafnað. Þá fáum við að sjá hvað verið er að bjóða í þessum viðræðum eða aðlögun sem stendur yfir.

Í salnum er einn þingmaður Vinstri grænna sem ég vona svo sannarlega að taki þátt í umræðunni í dag því að það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá að heyra hvaða sjónarmið Vinstri græn hafa í þessu máli og enn þá fróðlegra verður að sjá þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þessi mál hver afstaða þeirra verður þar því að ef eitthvað er að marka þær ályktanir sem hafa komið frá Vinstri grænum er sá flokkur á móti því að þiggja þessa styrki. Það verður því spennandi að sjá hvort þar fylgi efndir orðum.

Það er ef til vill hægt að segja sig í spor fjársveltra stofnana, að það geti verið skemmtilegt að fá þá aura sem koma frá Evrópusambandinu en það er vitanlega ekki gott ef það er ástæðan. Ég veit svo sem ekki hvort það er þannig. Það er líka mikilvægt fyrir okkur að fá úr því skorið við öll þau ráðherraskipti sem orðið hafa á stuttum tíma hvort einhver breyting verður á utanumhaldi eða stefnu í ráðuneytunum sem fengið hafa nýja ráðherra, nýja yfirboðara. Það er margt sem spyrja þarf um í ferlinu og þegar þessi mál koma til nefndar.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason benti réttilega á það áðan að það væri mjög sérstakt að taka við styrkjum í samningaferli. Við hljótum að sjá að samningaferlið hefur snúist upp í að vera aðlögun því að við erum að breyta okkar eða undirbúa breytingar á stjórnkerfi okkar og hinum ýmsu þáttum samfélagsins ef við göngum í Evrópusambandið. Ég held að við séum öll sammála um að ef samningur birtist eigi hann að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, að þjóðin eigi að fá að greiða um hann atkvæði, en því hefur enn ekki verið svarað hvers vegna þjóðin fékk ekki að taka ákvörðun um hvort leggja ætti að af stað í þessa vegferð. Það er ekki síður mikilvægt en að greiða atkvæði um samninginn þegar hann liggur á borðinu. Rökin fyrir því að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði á endanum eiga vitanlega að vera þau sömu og fyrir því að vilja fara af stað. Hvers vegna var það ekki samþykkt? Fyrir því var talað á Alþingi. Því miður ákvað meiri hluti Vinstri grænna og Samfylkingar ásamt nokkrum öðrum þingmönnum að fara aðra leið en það hefði vitanlega verið miklu betra fyrir málið allt ef um það hefðu verið greidd atkvæði í upphafi. Væntanlega hefur það verið mat þeirra sem fluttu málið að fyrir því væri ekki meiri hluti.