140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans. Við deilum þessari andúð okkar skulum við bara segja á Evrópusambandinu og öllu sem því við kemur. Við skiljum bæði hvers vegna Evrópusambandið ásælist það að Íslendingar gangi þar inn, það er fyrst og fremst vegna auðlinda okkar sem við höfum oft farið yfir í ræðum.

Nú er komið að þeirri stund að Íslendingar þurfa að innleiða þessa IPA-styrki eða réttara sagt hæstv. utanríkisráðherra hefur lagt það fram sem þingsályktunartillögu í þinginu. Hann hefur neitað því að þar sé um aðlögunarferli að ræða en svo sannarlega sannar þingsályktunartillaga að hér er ekki um neitt annað en aðlögunarferli að ræða vegna þess að þá 5–6 milljarða sem Evrópusambandið ber hingað til lands á næstu tveimur árum á að nota í eftirlitsiðnaðinn og þær EES-stofnanir sem hafa verið settar á fót hér á landi vegna aðildar okkar að EES-samningnum.

Þar sem hv. þingmaður er vel að sér í fjármálum ríkisins langar mig til að spyrja hann út í kaflann Framkvæmd áætlana og verkefna sem er að finna á bls. 3. Þar er talað um að heimila þurfi útflutning á tækjum sem flutt eru hingað til lands vegna þess að annars verði þeim fargað og þetta á að vera tollfrjálst. Það sem mig langar fyrst og fremst að spyrja um og er talað um þarna í sjöunda lagi hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í sjöunda lagi þarf að vera heimilt að flytja fjármagn til landsins í þágu viðkomandi verkefnis og virkur gjaldeyrisskiptamarkaður að vera fyrir hendi. Loks ber að heimila að flytja heim fé sem greitt hefur verið fyrir vinnu fjármagnaða af IPA í samræmi við þær reglur sem um það kunna að gilda á Íslandi.“

Þarna er örugglega ekki verið að tala um lambhrútana sem hæstv. utanríkisráðherra ræddi um í dag heldur líklega evrur. Hvað er átt við með þessu (Forseti hringir.) og hvernig samrýmist þetta því að við búum við gjaldeyrishöft?