140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi samningur gengur allur út á það að allir skattar, tollar og svona leiðindi sem venjulegir borgarar þurfa að hlíta séu aflögð. Nú eru gjaldeyrishöft hér á landi og ég veit ekki alveg hvort menn hyggjast aflétta þeim að þessu leyti. Það verður athyglisverð spurning til hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sé búinn að gera einhvern samning við Seðlabankann um að þessir peningar geti flotið fram hjá gjaldeyrishöftunum. Það væri svo sem í stíl við annan málflutning um skatta sem við ræðum seinna á dagskránni í dag að aflétta öllum sköttum af þeirri starfsemi sem hér á að eiga sér stað. Ég get ekki séð ef hér eru í gildi gjaldeyrishöft að þetta verði gert nema litið sé á samþykkt þessarar ályktunar sem undanþágu frá gjaldeyrishöftunum.

Hv. þingmaður sagði að við værum sammála um andúð á Evrópusambandinu. Það er ekki rétt, ég er mikill aðdáandi Evrópusambandsins og tel það mjög gott fyrir sinn hatt en ekki fyrir íslenskan hatt.