140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 4 í þessu plaggi kemur fram að ákvæði samningsins eigi við alla aðila, hvort heldur einstaklinga eða lögaðila, sem samið er um að veita þjónustu. Við vitum ekki hvort þeir eru tveir, 10 eða 100 eða hvað þeir eru margir, ég hef alla vega ekki fundið þá tölu hve umfangið getur verið mikið. Hafi hv. þingmaður séð það einhvers staðar væri gott að fá það upp á borðið.

Hv. þingmaður nefndi réttilega áðan að sú umræða sem verið hefur um afnám verðtryggingar sé á miklum villigötum, að það að vilja eða einhenda sér í að afnema verðtrygginguna eða gera það í áföngum sé háð því að ganga í Evrópusambandið eða taka upp evru. Þetta er vitanlega alger firra eins og hv. þingmaður benti réttilega á. Það er einfaldlega ákvörðun ríkisstjórnar á hverjum tíma að hefja það ferli eða gera það með einu pennastriki, sem er kannski heldur harkalegt, en að minnsta kosti að hefja ferlið að afnámi verðtryggingar.

Í d-lið 11. gr. samningsins er talað um „öll nauðsynleg innflutningsleyfi fyrir vörum, einkum sérhæfðum tækjabúnaði“. Ég hef hugsað mikið um það frá því að ég sá þetta fyrst um hvaða sérhæfða tækjabúnað geti verið að ræða, hvaða tækjabúnaður það sé sem ekki er fáanlegur á Íslandi sem þessir aðilar þurfa að nota við að framfylgja þessum styrkjum hér á landi. Hefur hv. þingmaður einhverja hugmynd um hvort hér er um að ræða einhvers konar tölvubúnað, sérhæfðar jarðýtur eða hvaða tækjabúnað hér er átt við?