140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér varðandi þá heimild sem þarna er rætt um, að þessir aðilar geti flutt inn tækjabúnað sem nauðsynlegur er fyrir þetta verkefni, hvort ekki sé mikilvægt fyrir okkur að skoða hvort setja þurfi einhverjar hömlur á hvaða búnaður þetta geti verið og fá hugsanlega einhvern lista yfir hvaða búnað er átt við. Ég held að það sé mjög óeðlilegt að við leyfum innflutning á miklu magni af tækjum og tólum og búnaði sem hægt er að kaupa á Íslandi (Gripið fram í.) og skekkir í rauninni samkeppni við innlenda aðila sem selja slíkan búnað eða veita þjónustu. Ég held að full ástæða sé til að skoða þetta mjög vandlega. Þetta lítur sakleysislega út hér en þegar farið er að hugsa út í málið getur ýmislegt verið á bak við það sem kallað er tækjabúnaður.

Hv. þingmaður kom og kannski eðlilega ekkert inn á það sem ég nefndi um verðtrygginguna, enda hefur þingmaðurinn farið ágætlega yfir það, en það er mjög erfitt hvort sem er í þessari umræðu eða annars staðar þar sem við ræðum Evrópusambandsmál þegar haldið er að fólki hreinum ósannindum, eins og því að forsenda þess að afnema verðtryggingu sé að taka upp evru, ganga í Evrópusambandið. Það getur vel verið að einhvern tíma verði tekinn upp annar gjaldmiðill hér á landi, við vitum ekkert um hvað gerist í framtíðinni, en í dag erum við með gjaldmiðil sem við þurfum að vinna með og sýnt hefur verið fram á bæði í frumvörpum í þinginu og af fræðimönnum að það er að sjálfsögðu ekki fyrirstaða fyrir því að afnema verðtrygginguna og koma heimilunum til hjálpar að hér sé króna.