140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni kærlega fyrir ræðu hans. Þar talaði maður sem ekki er búinn að týna niður eldmóðinum gagnvart stefnuskrá sinni og síns flokks. Við vitum öll að sá eldmóður hefur verið dýru verði keyptur því að hann þurfti að láta af störfum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir örfáum dögum.

Það er aðdáunarvert að sjá hann koma hingað upp og tala enn fyrir stefnuskrá flokks síns, hann hefur ekki gefist upp enda baráttumaður. Í framhaldi af því að hann þurfti að láta ráðherraembætti sitt af hendi tók formaður Vinstri grænna ráðuneyti hans yfir. Nú er hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon ráðherra yfir fjórum ráðuneytum, og svo vel vill til að þau ráðuneyti fjögur hafa öll áhrif á þessa Evrópusambandsumsókn.

Það skal og upplýst hér að komin er fram ástæða fyrir því að hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon lét fjármálaráðuneytið af hendi til samfylkingarráðherra vegna þess að fyrir liggur frumvarp í þá átt að lögleiða þurfi þessa styrki, sem er þvert á stefnu flokksins.

Hv. þingmaður talaði hér um sýndarleik og blekkingaleik og að það væri í stefnuskrá Vinstri grænna að ekki ætti að uppfylla þessi skilyrði ESB að taka við styrkjum til að gera Ísland að ESB-ríki fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu — og fór þingmaðurinn vel yfir það.

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Hvert verður framhaldið innan Vinstri grænna þegar þetta kemur fram hér í þingsályktunartillögu? Kemur þingmaðurinn ekki til með að berjast með okkur fyrir því að þetta verði fellt hér í þinginu þannig að við getum farið að snúa okkur að öðru en að ræða ESB-mál? Það snýst nefnilega um þessa þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) hvort þeirri umsókn verði viðhaldið eða ekki.