140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:37]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vitnaði til orða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem nú situr, Steingríms J. Sigfússonar, um að hann hefði orðið að gefa meira eftir í Evrópusambandsmálum gagnvart Samfylkingunni en hann hefði gert ráð fyrir. Ég er reyndar alveg hjartanlega sammála honum að það hafi verið gert, enda var ekki haft of mikið samráð um það.

Þetta er hins vegar mjög mikið hól um utanríkisráðherrann og hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er góður í þessu, að hæla utanríkisráðherranum. Það er alveg hárrétt að Samfylkingin hafði allt of mikið fram hvað varðaði Evrópusambandið. Enda var það þeim alfa og omega, það þurfti allt að snúast um það. Að mínu viti átti meira að snúast um það að takast á við afleiðingar efnahagshrunsins og byggja landið upp. Evrópusambandsumsóknin mátti svo sannarlega bíða ef hún átti þá nokkurn tíma að komast á dagskrá.

Ég viðurkenni að Samfylkingin hefur rekið þetta mál af miklu afli og krafti og náð allt of miklum árangri í því. (Gripið fram í.)