140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:40]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðustu spurninguna þá bendi ég hv. þingmanni á hvað sá sem hér stendur er sprækur og keikur og fylgir málum fast eftir; þannig er hann líka á þingflokksfundum.

Ég er ekki að gagnrýna Evrópusambandið sjálfs sín vegna. Ef þau vilja leggja saman öll sín ríki í eitt mega þau gera það fyrir mér. Ég tel hins vegar að við eigum ekkert erindi inn í þann klúbb.

Varðandi spurninguna um atkvæðagreiðsluna á sínum tíma þá vitna ég bara til atkvæðaskýringa sem voru fluttar þá, þar sem greidd voru atkvæði með því að aðildarumsóknin færi af stað af hálfu Alþingis og jafnframt var gerð grein fyrir því að flokkurinn styddi ekki aðild að Evrópusambandinu; ég vitna bara til þeirra atkvæðaskýringa.

Mér finnst betra að koma hreint fram og segja bara beint út: Þarna inn höfum við ekkert að gera. Við viljum ná góðum samningum og samstarfi við þessar þjóðir en við ætlum ekki að gerast aðilar að sambandinu. Það sem hér er á dagskrá, um að Evrópusambandið veiti okkur fjárhagsaðstoð til að uppfylla skilyrðin sem það setur til að hægt sé að gera við okkur samning — ég er á móti aðferð af því tagi. Ef við förum í samninga við Evrópusambandið gerum við það sem fullvalda og sjálfstæð þjóð á okkar forsendum og á okkar fjármunum en eigum ekki að þurfa að taka við fjármagni frá Evrópusambandinu til að reka okkar samninga, það er alveg fráleitt.

Ég viðurkenni að Samfylkingin eða hæstv. utanríkisráðherra lýsti því í ræðu hér áðan: Hver vill ekki taka á móti peningum? Alla vega er það svo, frú forseti, að í þessu samningaferli eigum við að vera sjálfstæð, á eigin forsendum, miða við okkar hagsmuni og getu í því efni.