140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast einhvern veginn um að hv. þingmaður hafi komið beint fram þegar hann svaraði spurningu minni um það hvernig fólki liði á þingflokksfundum hjá Vinstri grænum, alla vega ekki á fundinum í gær, að menn séu þar sprækir og kátir og glaðir. (JBjarn: Vígreifir eins og ég.) Vígreifir, já. Ég hugsa að margir séu bardagaþreyttir. (JBjarn: Ekki aldeilis.) Nei, ekki aldeilis. Jæja, þá vitum við það, líka þeir sem eru orðnir bardagaþreyttir.

Hann sagði: Við viljum ganga inn í Evrópusambandið á okkar forsendum. Það hefur aldrei nokkurn tíma staðið til. Evrópusambandið fer ekkert að breyta sínum reglum fyrir litla þjóð norður í hafi, það stendur ekki til, þannig að við förum aldrei inn í Evrópusambandið á okkar forsendum. Við förum alltaf inn í Evrópusambandið á þeirra forsendum en það getur vel verið að við getum sveigt það pínulítið til tímabundið þannig að það nálgist okkur en við munum aldrei fara inn á okkar forsendum.