140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, ræðu sem maður hefur svo sem heyrt áður. Hv. þingmaður hefur verið samkvæmur sjálfum sér í þessu máli algerlega frá upphafi.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður ætti ekki hugsanlega að gera samantekt eða eitthvað slíkt til að fara yfir hvernig staðan var á málefnum Evrópusambandsins í ráðuneyti hans áður en þingmaðurinn yfirgaf ráðuneytið. Það væri mjög gott og hollt að halda því til haga hvernig staðan var á málum er heyrðu undir ráðuneytið við þau skipti.

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvort þingmönnum Vinstri grænna sé stætt á þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þetta mál sem hér verður á eftir að greiða atkvæði öðruvísi en á móti þessari þingsályktunartillögu ef við horfum á samþykktir flokksráðsins og landsfundar. Ef þær liggja til grundvallar fyrir þeirri stefnu sem flokkurinn rekur á þingi veltir maður fyrir sér hvort það sé þá ekki einboðið að þingflokkurinn allur verði á móti þeim málum sem hér eru til umræðu.

Ég spyr vegna þess að hv. þingmaður fór mjög ítarlega yfir samþykktir Vinstri grænna og las upp úr ályktun flokksráðs þar sem, ef ég ef tekið rétt eftir, var sagt að ekki yrði tekið við styrkjum til að undirbúa aðild. Það kemur svo sannarlega fram í þessari þingsályktunartillögu sem er til umræðu að verið er að undirbúa aðild með því að þiggja þessa styrki. Þar af leiðandi er þetta meginspurningin því að við hljótum að gera ráð fyrir að þingflokkurinn fylgi þessum ályktunum.