140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:47]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að mínu viti er stefna flokksins alveg skýr í þessum efnum og ég hef gert grein fyrir henni. Ég vil einnig árétta það að ég hef sem ráðherra unnið samkvæmt henni.

Ég vitna til orða hæstv. innanríkisráðherra fyrr í dag þar sem ráðherrann lýsti því yfir að af hálfu ráðuneytis hans væri líka unnið samkvæmt þessum samþykktum flokksins, að taka ekki við aðlögunarstyrkjum, þessum IPA-styrkjum, til að aðlaga íslenska stjórnsýslu og stofnanakerfi að Evrópusambandinu. Mér þótti gott að heyra það og hef ekki verið í nokkrum vafa um afstöðu hæstv. ráðherra.

Stefna flokksins er skýr. Ég get alveg upplýst það með sama hætti og innanríkisráðherra gerði að í minni tíð í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu var öllum stofnunum það ljóst að ekki var ekki ætlast til þess að verið væri að sækja slíkt gjafafé til Evrópusambandsins vegna Evrópusambandsumsóknarinnar og aðlögunar að Evrópusambandinu. Öllum var það ljóst meðan ég var þar og ég treysti því náttúrlega að sá sem við því starfi tekur standi með sama hætti og ég á þessum stefnumálum flokksins.