140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Það hefur vakið athygli okkar að fáir þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna eru á mælendaskrá í dag. Hv. þingmaður er sá eini sem hefur tekið til máls en það er svo sem enn tækifæri. Ég óskaði eftir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra yrði viðstaddur umræðuna vegna fortíðar hans varðandi þessi máls en því miður gat ráðherrann það ekki, er staddur í Brussel samkvæmt mínum upplýsingum. Ef hæstv. fyrrverandi ráðherra veit hvað arftaki hans er að gera í Brussel væri forvitnilegt að vita það en ég ætlast svo sem ekkert endilega til að þingmaðurinn viti það.

En getur hv. þingmaður nefnt dæmi um styrki sem hefur verið hafnað því að mjög forvitnilegt er að vita hvað hefur drifið að starfsfólki okkar eða stofnunum í möguleikum á styrkjum. Ég skil vel að hv. þingmaður hafi það kannski ekki alveg á hraðbergi hvað það getur verið, en ef þingmaðurinn man eitthvað þá væri það forvitnilegt.