140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:50]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég legg áherslu á þá afstöðu mína og þeirra samþykkta sem flokkur minn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, stendur að og er stofnaður um, þ.e. að við berjumst gegn aðild að Evrópusambandinu og að í því ferli sem nú er verði ekkert gert sem á nokkurn hátt geti flokkast undir aðlögun eða til atriða sem geta skaðað framtíðarstöðu okkar. Ég tel að þessir IPA-styrkir séu hluti af því sem eigi að hafna.

Ég vil árétta það sem ég sagði að engar stofnanir af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í minni tíð hafa fengið IPA-styrki samkvæmt því sem hér er um að ræða og var alveg ljóst af minni hálfu að það væri ekki á dagskrá, enda hvorki í samræmi við stefnu mína sem ráðherra né stefnu flokks míns í ríkisstjórninni og ekki heldur, tel ég, í samræmi við stefnu þingsályktunartillögunnar sem samþykkt var um að senda aðildarumsókn að Evrópusambandinu — sem aldrei átti að vera samþykkt að mínu mati.