140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:52]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Í dag hefur hæstv. utanríkisráðherra verið að kynna eitt af sínum helstu hugðarefnum, líklega það helsta. En menn komast þó ekki hjá því að velta fyrir sér hvernig það megi vera að hæstv. ráðherra sé jafnilla fyrirkallaður og augljóst hefur verið í dag. Hvers vegna er hæstv. ráðherra ekki glaður í dag þegar hann kynnir þennan gífurlega efnahagslega stuðning við helsta og í rauninni eina baráttumál sitt? (Gripið fram í.) Hann ætti að vera jafnkátur og gömlu félagarnir, kommarnir, þegar þeir komu úr fjáröflunarferð til Moskvu, enda líkist þetta um margt sem gömlu vinir hans á vinstri kantinum lögðu upp með í samskiptum við útlönd og þá sérstaklega austantjaldslöndin.

En það er dauft yfir ráðherranum og hann virðist vera, eins og ég segi, frekar illa fyrirkallaður. Er það vegna þess að hæstv. ráðherra hefur efasemdir um þetta mál? Er eitthvað að þessu máli sem veldur hæstv. ráðherra áhyggjum?

Hann hefur fleira til að gleðjast yfir. Hann er búinn að beygja samstarfsflokkinn, Vinstri græna, í duftið í Evrópumálum, búinn að losa sig við „vin sinn“, fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Jón Bjarnason, svoleiðis að nóg ætti að vera fyrir hæstv. ráðherra að gleðjast yfir. En samt er eitthvað þungt yfir honum eins og við höfum séð alveg frá því að hæstv. ráðherra mætti hingað í morgun eða skömmu eftir hádegið. Við verðum að viðurkenna að það getur reyndar verið eitthvað annað, kannski er það ekki þetta mál. Það er eitt og annað sem getur legið þungt á hæstv. ráðherra. Er það kannski staðan í Evrópusambandinu sjálfu? Þar sem hver dagur er núna verri en næsti dagur á undan, þar sem ástandið fer stöðugt versnandi á öllum sviðum sambandsins, hvort sem er á því pólitíska eða efnahagslega, og átján neyðarfundir í röð hafa ekki dugað til að bæta þar úr. Eða er það andstaðan við Evrópusambandið sem er mjög rík á Íslandi þessa dagana og ekkert útlit fyrir að samningur ráðherrans verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki næstu árin að minnsta kosti? Nú er Króatía að ganga í Evrópusambandið. Vildi ekki hæstv ráðherra koma Íslandi inn á undan Króatíu eða jafnvel með Króatíu? Þetta gæti verið áhyggjuefni. Eða er það staðan í eigin flokki? Við verðum að taka tillit til þess. Kannski er það staðan í Samfylkingunni sem gerir hæstv. ráðherra svona órólegan.

Vegið hefur verið mjög ómaklega að hæstv. utanríkisráðherra, ég get alveg sagt það, það var ómaklega vegið að hæstv. ráðherra. Þó að hann sé ekki alltaf hreinn í baráttunni þá skal ég viðurkenna að það sem samflokksmenn hafa verið að segja um hann, margir hverjir, að undanförnu var ekki sanngjarnt. Hann er hugsanlega eitthvað órólegur yfir stöðu sinni í flokknum eða stöðu flokksins.

Þá komum við að skoðanakönnunum sem er, eins og flestir vita, næstmesta áhugamál Samfylkingarinnar. Samfylkingarmenn meta í rauninni enga verðleika aðra en fylgið í könnunum. Við sjáum nú að fylgi Samfylkingarinnar er í sögulegu lágmarki. (Utanrrh.: … fór niður í 11%.) Ég kannast ekki við það að fylgi Samfylkingarinnar hafi farið niður í 11% eins og hæstv. ráðherra kallar fram í, hugsanlega í upphafi í tíð hans sem formanns Samfylkingarinnar, en ekki undanfarinn áratug. Hvað sem því líður sjáum við í könnunum, jafnvel í Fréttablaðinu — hæstv. ráðherra tekur yfirleitt eingöngu mark á skoðanakönnunum Fréttablaðsins eins og þær geta oft verið skrýtnar, en hæstv. ráðherra tekur mark á þeim. Hvað segir síðasta könnun Fréttablaðsins um stöðu Samfylkingarinnar? Samfylkingin er orðin jafnstór Framsóknarflokknum, báðir flokkar með 17% í síðustu könnun Fréttablaðsins, sem yfirleitt og alltaf hefur þó mælt Framsóknarflokkinn miklu minni en aðrir sem gera kannanir á pólitísku fylgi. (Utanrrh.: Það er ekkert að marka kannanir Fréttablaðsins. Þú segir það alla vega. ) Hæstv. ráðherra kallar fram í að það sé ekkert að marka kannanir Fréttablaðsins. (Utanrrh.: Þú segir það.) Segir að ég segi það, ég get alveg sagt það, en það hefur ekkert verið að marka þær að því leytinu til að þær hafa vanmetið fylgi Framsóknarflokksins en ofmetið fylgi Samfylkingarinnar og þess vegna hlýtur þessi niðurstaða að vera ráðherranum sérstakt áhyggjuefni. Samfylkingin hefur misst um það bil helminginn af því fylgi sem hún hafði í könnunum fyrir síðustu kosningar. Það hlýtur að valda manni áhyggjum sem virðist, eins og ég sagði áðan, meta pólitíska verðleika eingöngu út frá í fylgi í könnunum. (Utanrrh.: Ég fór nú með flokkinn tvisvar sinnum í …) Hugsanlega hefur hæstv. ráðherra áhyggjur af eigin stöðu gagnvart kjósendum (Gripið fram í: Já.) og óttast að það geti komið til kosninga áður en langt um líður. (Gripið fram í: Gagnvart Reykjavík …) Og ekki einu sinni víst að hæstv. ráðherra kæmist á framboðslista og þar af leiðandi yrði hann varla ráðherra áfram.

Við þurfum að hafa skilning á því hvernig hæstv. ráðherra líður. Hugsanlega hefur hann líka áhyggjur af að vera kominn með Icesave í fangið og áttar sig á því að enginn treystir honum til að fara með það mál, rétt eins og menn treysta honum líklega fæstir til að leiða Evrópumálin til lykta, enda birtist hæstv. ráðherra miklu frekar sem sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi en sá maður sem gætir hagsmuna Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Eða er það þessi almenni vandræðagangur í ríkisstjórninni? Vandræðagangur sem er slíkur að hæstv. ráðherra telur eins og við heyrðum rétt eftir hádegið að ríkisstjórnin ætti að hafa enn minna fylgi en hún hefur, ríkisstjórninni hafi gengið svo illa að fylgið ætti í raun að vera enn þá minna en það er.

Það er fleira sem getur komið til. Hugsanlega hefur hæstv. ráðherra áhyggjur af því hvað gengur illa að koma upp nýju hjálparkokkaflokkunum fyrir Samfylkinguna sem áttu að draga hana að landi eftir næstu kosningar. Það hefur ekki alveg gengið eins og til var sáð, geri ég fyrir hjá hæstv. ráðherra. (Utanrrh.: Ekki sáði ég til þess.) Eða er það sú endalausa upprifjun á hruninu sem fer svona fyrir brjóstið á hæstv. ráðherra og upprifjun á framgöngu og frammistöðu hrunstjórnarinnar svokölluðu þar sem hæstv. núverandi utanríkisráðherra var iðnaðarráðherra og eins og samflokksmenn hans þreyttist ekki á að minna á að útrásin og vöxtur bankanna væri Samfylkingunni að þakka enda byggðist þetta allt saman á EES-samningnum. Svo mikið lagði flokkur hæstv. ráðherra upp úr að halda útrásinni og vexti bankanna gangandi að þeir gerðu kröfu um að það yrði sérstök klausa í stjórnarsáttmálanum um að ekkert mætti gera til að hefta vöxt bankanna og útrásina sem skyldi eiga sér stað frá Íslandi. Það er því af nógu að taka, það er margt sem getur valdið hæstv. ráðherra áhyggjum. En hugsanlega er það ekki síður það mál sem hann kynnir hér í dag sem gerir hæstv. ráðherra órólegan enda er það mál að minnsta kosti á gráu svæði lagalega.

Fyrir liggur að óheimilt er samkvæmt íslenskum lögum fyrir erlend ríki að reka áróðursstarfsemi á Íslandi. Engu að síður er hæstv. ráðherra þátttakandi í því með Evrópusambandinu að koma hér upp alls konar áróðri og aðlögun, því að allt gengur þetta að sjálfsögðu út á aðlögun. Það er verið að styrkja skattfrjálst aðlögun að sambandinu. Hvernig hefði það til dæmis litið út á þeim tíma þegar Íslendingar voru að semja um Icesave-kröfur Breta og Hollendinga, að ríkisstjórnin hefði fallist á að taka við styrkjum frá Bretum og Hollendingum til að undirbúa samningsgerðina og greiðslurnar til að liðka til fyrir málinu? Hvernig hefði það litið út? Og hvernig er þá hægt að halda því fram um þetta mál að þessir styrkir frá Evrópusambandinu séu ekki til þess fallnir að gera okkur erfiðara fyrir að standa í lappirnar gagnvart sambandinu þegar Evrópusambandið sjálft er að fjármagna framgöngu okkar í svokölluðu samningaviðræðum við Evrópusambandið? Hvar er reisnin yfir slíku að láta viðsemjandann borga fyrir eigin framgöngu? Er það líklegt til árangurs í því sem hæstv. ráðherra kallar samningaviðræður, sem jafnvel Evrópusambandið sjálft varar menn við að kalla samningaviðræður því að í raun snúist þetta eingöngu um að aðlaga sig að Evrópusambandinu og því sem það stendur fyrir?

Getur jafnvel verið að hæstv. ráðherra hafi örlitlar áhyggjur af því innst inni, sérstaklega eins og málin standa í ríkisstjórninni núna, að draga Vinstri græna svo gersamlega á asnaeyrunum, eins og birtist í þessu máli þar sem gengið er algerlega í berhögg við skýrar samþykktir Vinstri grænna um að ekki skuli taka við styrkjum eins og hæstv. ráðherra er að boða hér?

Það getur verið margt sem veldur hæstv. utanríkisráðherra áhyggjum í dag og erfitt um það að segja hvað vegur þar þyngst. En það hlýtur að vera áhyggjuefni að ráðherrann komi hingað og kynni mál sem er á gráu svæði lagalega, er til þess fallið að veikja samningsstöðu okkar við Evrópusambandið og treystir sér í rauninni ekki almennilega til að tala fyrir málinu, sýni á sér bæði hik og hræðslu, hugsanlega vegna þess að hann veit að málið er til þess fallið að sýna öllum — af því að Samfylkinguna skiptir bara eitt máli, það er öllu til fórnandi að komast í Evrópusambandið — að hinn ríkisstjórnarflokkurinn, samstarfsflokkurinn, er tilbúinn að gefa hvað sem er eftir fyrir að fá að hanga áfram í ríkisstjórn með Samfylkingunni.