140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við hér þingsályktunartillögu um rammasamning milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, svokallaða IPA-styrki. Á eftir verður rætt frumvarp til laga sem heitir því sérkennilega nafni Frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Þetta er ansi langt heiti á stjórnarfrumvarpi.

Þetta frávik fjallar um 5–6 milljarða og það kallar ríkisstjórnin frávik frá lögum um skatta. En um hvað fjallar þetta sérkennilega mál? Jú, það hefur komið fram í umræðunni í dag að það fjallar um það að greiða á styrki samkvæmt þessum rammasamningi og frumvarpi í samningsferlinu.

Nú hefur það verið rætt nokkrum sinnum af hv. þingmönnum hvað það þýðir að greiddir séu styrkir í samningsferli milli tveggja jafnstæðra aðila, hvort það sé eðlilegt þegar aðilar standa jafnfætis og eru að semja um eitthvað að annar aðilinn greiði styrki. Það hlýtur þar af leiðandi að vera siðferðileg spurning hvort það sé eðlilegt að taka á móti þessum styrkjum.

Um hvað snúast styrkirnir? Jú, samningurinn gerir ráð fyrir því svo ég vitni í þingsályktunartillöguna, með leyfi forseta:

„Samningurinn gerir ráð fyrir að öll aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem þeim er ætlað að styðja. Enginn hluti IPA-aðstoðar rennur því til að greiða skatta eða önnur opinber gjöld og mun fjármálaráðherra leita eftir viðeigandi breytingum á skattalögum í því skyni með sérstöku frumvarpi.“ — Eins og ég nefndi áðan.

Síðar í þingsályktunartillögunni kemur fram:

„Þannig skulu einstaklingar sem ekki eru búsettir hér á landi en samið er við um að veita þjónustu eða vinnu sem fjármögnuð er af IPA-aðstoð ekki greiða tekjuskatt hér á landi af starfi sem unnið er á grundvelli slíks samnings. Að meginstefnu er því hér um að ræða sams konar réttindi og skyldur og almennt gilda gagnvart tæknilegu starfsliði sendiráða og alþjóðlegra stofnana sem hér starfa. Hinu sama gegnir um önnur opinber gjöld.“

Þetta er mjög sérkennilegt og varðar siðferðilega hluti, finnst mér, að á sama tíma og við erum að semja við annan aðila um hvort Ísland eigi að vera aðili að Evrópusambandinu erum við að skera harkalega í niður í eigin fjárlögum, að á sama tíma og ríkisstjórnin leggur þungar álögur á almenning í landinu sé gerður slíkur samningur við samningsaðilann, Evrópusambandið, um að undanskilja alla skatta frá A til Ö.

Augljóslega mundu menn ekki þurfa á slíkum styrkjum að halda ef tveir jafnstæðir aðilar væru að semja um eitthvað sem þeir ætluðu að nálgast, augljóslega, og það hefur komið fram í ræðum, m.a. hæstv. utanríkisráðherra, að verið er að fá fjármuni hér inn til að setja upp og aðlaga stjórnsýslukerfið á Íslandi að því sem fyrir er í Evrópusambandinu. Auðvitað fjalla samningaviðræðurnar ekki um það að við komumst undan því. Sú umræða hefur farið fram. Menn hengja sig í einhver orð en það er auðvitað þannig að við erum að aðlaga okkur að því kerfi sem er í Evrópusambandinu. Samningarnir snúast fyrst um undanþágur, oftast tímabundnar, og í einstaka tilfelli hugsanlega um einhverja sérsamninga, aðstoð við einstök málefni. Almennt séð erum við fyrst og fremst að aðlaga okkur að hinu evrópska kerfi. Styrkirnir eru þar af leiðandi til þess ætlaðir, eins og ég sagði áðan, að breyta stjórnsýslu Íslands í þá átt. Hæstv. ráðherra minntist meðal annars á landbúnaðarkerfið og þar er hugmyndafræðin sú að setja upp greiðsluþjónustu með 100 manna stofnun, og eins og hæstv. ráðherra sagði er það til þess gert að við inngöngu mundu íslenskir bændur fá greiðslur fá fyrsta degi.

Það hefur líka komið fram að til að við séum ekki að aðlaga Ísland að þessu sé hægt að gera þetta að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, og ef hún færi svo illa að þetta yrði samþykkt tæki tvö og hálft til þrjú ár að breyta íslensku stjórnkerfi, m.a. að setja upp slíka greiðsluþjónustu. Því er kannski rétt að spyrja: Í hvað eiga þessir fjármunir að fara núna ef við ætlum ekki að breyta kerfinu hjá okkur fyrr en og ef til þess kemur, og ég segi vonandi ekki, að Ísland verður aðili að Evrópusambandinu og þjóðin samþykkir það í þjóðaratkvæðagreiðslu? Til hvers erum við að fá þessa fjármuni inn núna til breyta stjórnsýslu og setja upp kerfi ef við höfnum þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu eða slítum samningunum á einhverjum öðrum tímapunkti vegna stórkostlegs ágreinings meðal annars í sjávarútvegsmálum, svo það sé nefnt? Af hverju erum við að eyða tíma stjórnsýslunnar á Íslandi og taka við fjármunum til að breyta kerfi sem við erum þá væntanlega sammála um að henti okkur ekki, ekki Íslandi og ekki okkar stjórnsýslu? Af hverju erum við að eyða bæði orku og fjármunum í þetta? Það er auðvitað spurning út af fyrir sig.

Ef ég nefni aðeins frumvarpið — af því að ég nefndi hér undanskot frá öllum opinberum gjöldum þá eru skilgreiningar í frumvarpinu um þetta frávik, 5–6 milljarða frávik frá lögum um skatta og gjöld — þá er þar fjallað um ESB-verktaka og ESB-samning. Ég vitna hér í 3. gr.:

„Við innflutning ESB-verktaka á vörum sem fjármagnaðar eru af ESB-samningi skal fella niður aðflutningsgjöld.“

Og í næstu grein:

„… skal vera undanþeginn virðisaukaskatti.“

Og í 5. gr.:

„Einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir hér á landi, eru ESB-verktakar og selja vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skulu undanþegnir skattskyldu …“

Þetta er auðvitað mjög sérkennilegur samningur og það sem er líka sérkennilegt við samninginn og hlýtur að kalla á einhver viðbrögð þeirra sem fara með stjórnsýsluna, og þar er hæstv. utanríkisráðherra fremstur í flokki í þessu máli, er þetta: Af hverju í ósköpunum — nú er janúar 2012, samningurinn var aftur á móti undirritaður 8. júlí 2011, honum var að því er virtist haldið leyndum lengi vel fram eftir og kom til tals hér á haustmánuðum — kom þetta ekki inn í þingið áður? Af hverju komu þessir fjármunir, og svo einstakar afgreiðslur sem tengdust fjárlagagerðinni, ekki inn í umræðuna áður og á meðan unnið var við fjárlögin? Er hugsanlegt, hæstv. utanríkisráðherra, að það hafi verið vegna þess að menn töldu erfitt að standa hér með tillögur um að undanskilja allar tekjur tekjuskatti, virðisaukaskatti og öðrum gjöldum á sama tíma og menn lögðu hverja álöguna á fætur annarri á bæði almenning og fyrirtæki í landinu og voru með blóðugan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu? Er hugsanlegt að menn hafi ekki treyst sér í þá umræðu á þeim tíma og koma þess vegna með þetta hingað eftir á?

Það verður að segjast eins og er að það er, eins og hæstv. innanríkisráðherra nefndi hér í ræðu í dag, nánast ógeðfellt að hugsa til þess að þessi samningsaðili, eins risastór og hann er, sé að semja við okkur, þetta litla land, um að dæla fjármunum inn í landið til að liðka fyrir áhuga Íslendinga á Evrópusambandinu. Það hefur líka komið fram hvort það sé eðlilegt, það er alla vega á gráu svæði lagalega, að erlent ríki sé að reka áróður á Íslandi fyrir eigin ágæti. Er það eðlilegt í samningsferlinu? Er það siðferðislega eðlilegt?

Niðurstaða mín er sú, frú forseti, að svo sé ekki og að þessi vegferð sé röng og við ættum þess vegna að hafna þessum tillögum. Í rauninni er það skoðun mín að við ættum að hætta þessari aðildarumsókn við núverandi aðstæður, setja hana til hliðar og athuga hvernig ástandið verður í Evrópu og á Íslandi eftir til að mynda tvö til þrjú ár.