140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í henni. Ég get nú trúað hæstv. forseta fyrir því að þessi umræða hefur verið málefnalegri en ég átti von á fyrir fram. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að uppi eru margvísleg álitamál í þessum efnum, bæði varðandi þingsályktunartillöguna sjálfa og margt annað sem tengist umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar blasir við sú staðreynd að það var þingið sjálft sem tók þessa ákvörðun.

Við skulum heldur ekki gleyma því að sú ákvörðun var tekin með þeim hætti að að henni áttu aðild þingmenn úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi nema hugsanlega einn. Sá lítur að vísu ekki á sig sem flokk heldur hreyfingu, og hafði reyndar lýst stuðningi við umsóknina en dró hann til baka af óskyldum ástæðum.

Það hefur verið gert að ádeiluefni gagnvart samstarfsflokki mínum í ríkisstjórn að hann hafi látið teyma sig of langt í þessu máli. Afstaða Vinstri grænna hefur alltaf legið fyrir. Hún hefur legið fyrir frá fyrsta degi þessa máls þegar við samþykktum tillöguna á sínum tíma. Til að mynda hefur hæstv. innanríkisráðherra, sem oft hefur talað með afdráttarlausum hætti, sagt það mjög skýrt að hann telji að þó að hann hafi sína tilteknu skoðun á Evrópusambandinu sé hann þeirrar skoðunar að það sé þjóðin sem eigi að fá að útkljá það í atkvæðagreiðslu. Það finnst mér vera hin lýðræðislega nálgun að málinu. Það er ekkert annað sem vakir fyrir mér en að leggja fram á völlinn sem bestar upplýsingar og málið er ekki tæmt fyrr en samningurinn er fram kominn og menn sjá hvað í honum felst. Ég held að margir séu mér sammála um það. Ég geri mér algjörlega grein fyrir því að eins og sakir standa í Evrópu er ástandið þannig að það er líklegt til þess að skera ekki upp sterkar fylkingar til stuðnings Evrópusambandinu hér á landi.

Eigi að síður er það þannig að miðað við síðustu skoðanakönnun sem var gerð jókst lítillega stuðningurinn við aðild að Evrópusambandinu á Íslandi og ef menn skoða hvaða áhrif ástandið úti í Evrópu hefur haft yfir höfuð á stuðning við það góða samband held ég að benda megi á þá staðreynd að þau 37% sem styðja aðild að Evrópusambandinu á Íslandi liggur í hæsta kantinum þegar maður skoðar stuðning við það samband innan aðildarlandanna sjálfra. Mér finnst það fullkomlega eðlilegt.

Mér finnst það mjög merkilegt að við aðstæður eins og þessar þar sem verið hefur mikið rót á evrunni, sem margir á Íslandi telja mjög eftirsóknarverðan gjaldmiðil og hafa horft til, skuli menn velta þessum málum svo alvarlega fyrir sér. Eigi að síður verður líka að horfa til þeirrar staðreyndar að í endurteknum skoðanakönnunum hefur komið fram að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill sjá ályktun Alþingis framkvæmda, þ.e. að samningi verði lokað, að komið verði með hann heim og að þjóðin fái að greiða atkvæði. Það er líka hin eðlilega og lýðræðislega nálgun að þessu máli.

Það sem ég á erfitt með að skilja hjá mörgum hv. þingmönnum, m.a. þeim sem talaði síðast og flutti alveg prýðilega og málefnalega ræðu, er fælnin við að útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef þjóðin hafnar samningnum eða ef hún samþykkir hann er þá alla vega eitt ljóst: Hún hefur kveðið upp dóminn. Eigum við alþingismenn að vera hrædd við dóm þjóðarinnar? Að sjálfsögðu ekki. Þetta finnst mér skrýtið.

Mér finnst það líka skrýtið þegar hér kemur hver á fætur öðrum og heldur því fram að samningurinn verði felldur … (REÁ: Þú sagðir það.) Nei, ég hef aldrei sagt að ég telji að samningurinn verði felldur, þvert á móti er ég mjög staðfastlega þeirrar skoðunar að hann verði samþykktur þegar hann kemur að lokum til atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.) Þegar upp verður staðið er ég því vonbjartur um með hvaða hætti þjóðin afgreiðir málið. En hver sem niðurstaðan verður sætti ég mig við hana. Ef hún verður mér andstæð bít ég bara í það súra epli. Það sama verða aðrir hv. þingmenn að gera, þeir verða að bíta í það súra epli ef svo fer, sem ég tel öll rök hníga að, að samningurinn verði að lokum samþykktur. (Gripið fram í.)

Eins og ég sagði áður en hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kom hér til salar á ég erfitt með að skilja þá þverstæðu sem mér finnst felast í málflutningi þingmanna sem segja, eins og hv. þingmaður, að það sé algjörlega borðleggjandi að það þurfi ekki einu sinni kristalskúlu til þess að spá í það, hún sé svo viss um það að samningurinn verði felldur. Hvers vegna ættum við þá ekki að leyfa því að koma fram? Hvers vegna ættum við þá ekki að leyfa þjóðinni að tjá þann vilja sinn? Ég held að ástæðan sé sú að hv. þingmaður telur að það kunni nú að fara öðruvísi.

Ég rifjaði upp þróunina í Króatíu. Í fyrra hrapaði stuðningurinn, ég held að það hafi verið snemma árs í fyrra sem stuðningurinn fór niður í 26–29%, það fór eftir því hvaða skoðanakönnun maður skoðaði. Í aðdraganda kosninganna sem er nýlokið í Króatíu var staðan þannig að 55–56% voru þá fylgjandi aðild en í kosningunum voru það 67%. Ég segi þetta til þess að sýna hv. þingmönnum fram á að skjótt geta veður skipast í lofti.

Þeim spurningum sem hér koma fram var að mestu leyti svarað í framsögu minni fyrr í dag. Sjálfsagt er síðan að skoða allt það sem þingmenn vilja skoða í tætlur í nefndinni. Það er réttur þingsins og ég geri engar athugasemdir við það. Tveir hv. þingmenn, Ragnheiður Elín Árnadóttir og einn annar vörpuðu til mín spurningu um það af hverju frumvarpið hefði ekki verið fyrr á ferð. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði að hún teldi að þarna hafi verið byrjað á öfugum enda, að frumvarpið hefði átt að koma fram á undan fjárlögunum. (REÁ: Að minnsta kosti.) Frumvarpið kom fram á haustþingi. Það kom að vísu ekki fram fyrr en tæpri viku áður en fjárlögin voru samþykkt. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Hv. þingmaður getur skoðað samninginn. Þá sér hún hvenær embættismenn settu stafi sína undir hann með fyrirvara um samþykki Alþingis. Það var 8. júlí. Þá var brostið á með sumarleyfum í hinu íslenska stjórnkerfi, ég ímynda mér að sú hafi verið raunin líka í fjármálaráðuneytinu þar sem menn hafa verið hart keyrðir síðustu árin og kannski ekki alltaf fengið sumarleyfi.

Ég ímynda mér, vegna þess að það var talsverð vinna að gera það frumvarp sem hér er næsta mál á dagskrá, að það hafi verið tímaskortur sem olli tímasetningunni. Ég man ekki hvenær fjárlagafrumvarpið var lagt fram en það var til reiðu í byrjun september. Menn vinna með þokkalegum hætti í fjármálaráðuneytinu og reyna að klára mál í tíma til þess að koma þeim í prentun o.s.frv., eins og hv. þingmaður veit. Tímaskortur er eina ástæðan sem ég get gefið hv. þingmanni fyrir þessu.

Virðulegi forseti. Það eru í sjálfu sér engar aðrar spurningar sem ég hef ekki svarað sem komu í dag og ég nefndi ekki í framsögu minni. Ég þakka að lokum hv. þingmönnum fyrir þátttöku þeirra í umræðunni og fyrir það sem ég gat um í upphafi máls míns, að þessi umræða var þrátt fyrir allt málefnaleg, að minnsta kosti meira en á köflum, og málefnalegri en ég hélt að hún yrði. Ég skil alveg viðhorf ákveðinna þingmanna sem komið hafa fram með sterkum hætti og þau eru fullkomlega lögmæt. Ég hef önnur, og ég hef ekkert verið að fela þau.

Ég vil líka segja það um hv. þm. Jón Bjarnason, sem sat í ríkisstjórn, að hann dró ekkert af sér varðandi (VigH: Hann var líka rekinn.) andstöðu sína, frú hv. þingmaður, (Gripið fram í.) við þetta mál. Þannig eiga þingmenn að vera. Þeir eiga að vera fastir á sínu alveg eins og ég er harður á mínu hér og í öðrum málum, og menn eiga að gera eins og ég reyni að gera, að fylgja sannfæringu sinni í öllum málum. Í sumum málum kann það að vera erfitt (Gripið fram í.) og hugsanlega pólitískt lífshættulegt í stöku málum. Hins vegar segi ég, af því að landsfundarsamþykkt Vinstri grænna hefur borist í tal, að þar er algjörlega skýrt tekið fram að ekki eigi að gera neinar breytingar á stofnunum, reglum eða lögum áður en fyrir liggur gulli drifið samþykki þjóðarinnar. Það er leiðarhnoðað. (Gripið fram í.) Í öllu þessu ferli hef ég farið eftir því sem ég lít á sem biblíu mína í þessum efnum, það er álit utanríkismálanefndar. (Gripið fram í.)