140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig. Þá þarf ég væntanlega ekki að hlusta á það framar að hæstv. utanríkisráðherra tali um það að þjóðin hafi síðasta orðið í þessu máli vegna þess að það er Alþingi sem hefur síðasta orðið í þessu máli. Ég þarf ekki að hlusta á það framar sem ég er búinn að hlusta á allt of oft.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra varðandi Króatíu. Þar greiddi 31% kjósenda með aðild, það var nefnilega 47% mæting á kjörstað og af þeim greiddu 2/3 atkvæði. Króatía hefur lifað við mikinn ófrið undanfarin ár og það er eitt gott við Evrópusambandið, það er búið að tryggja frið í Evrópu innan sinna vébanda frá stofnun, í rúm 60 ár. Þess vegna gengur Króatía inn. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Hafa Íslendingar sömu þörf fyrir að ganga inn í Evrópusambandið til að forðast ófrið?