140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo til að ég hef kynnt mér stöðuna í Króatíu, bæði á fundum með embættismönnum, með stjórnmálamönnum og með ráðherrum og ég hef farið til Króatíu. Ég hef rætt við blaðamenn og ritstjóra og spurt þá hvað það væri sem þeir teldu vera aflvakann á bak við það að króatíska þjóðin mundi hugsanlega á þeim tíma (Gripið fram í.) vilja ganga inn og verða fullgildur aðili að Evrópusambandinu.

Á þeim tíma var svarið algjörlega klárt, sem tók kannski mið af því að menn lifðu á friðartímum þá, þ.e. í fyrra og á árinu þar áður: Efnahagslegir þættir réðu meiru. Menn töluðu ekki um að úti í Evrópu ríkti friður vegna Evrópusambandsins en menn taka friðinn jafnan sem gefinn hlut á friðartímum og þeir eru ekki alltaf að velta því fyrir sér hvað veldur honum. Umræðan í Króatíu, að minnsta kosti eins og mér var greint frá henni, snerist ekki um það (Forseti hringir.) að þar væru menn fyrst og fremst að sækjast eftir friði, þeir töldu að hann væri hvort sem er á brostinn.