140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra gerði tilraun til að svara fyrirspurn minni um það af hverju þingsályktunartillagan og frumvarpið komu ekki fram fyrr. Núna ætla ég bara að tala um þingsályktunartillöguna. Hæstv. utanríkisráðherra lét sér detta í hug að það hefði verið svo mikið annríki í fjármálaráðuneytinu. Okkur hefur nú skilist á fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra að þar vinni menn dag og nótt og það hafi aldrei verið gert áður þannig að þetta kemur mér svolítið á óvart.

Þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra er orðuð þannig að Alþingi álykti að heimila ríkisstjórninni fyrir hönd Íslands að samþykkja rammasamninginn. Af hverju beið þá hæstv. utanríkisráðherra eftir fjármálaráðuneytinu í þessum efnum? Er ekki mikilvægt að fá heimild Alþingis þegar hugsanlega er verið að skuldbinda (Forseti hringir.) íslenska skattborgara í fjárlagafrumvarpi sem nú er orðið að fjárlögum?