140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð fyrst að minnast á það að mikið óskaplega er hæstv. utanríkisráðherra illa að sér í fjármálum ríkisins því að nú þegar hafa verið greiddar 596 milljónir út úr IPA-verkefninu og fóru inn í fjárlög 2012, aukalega fóru 280 milljónir til Þýðingamiðstöðvarinnar. Því skal haldið til haga hvað er rétt í þessu.

Varðandi ummæli hæstv. utanríkisráðherra um hv. þm. Jón Bjarnason að hann hafi verið harður af sér og fylginn sér í ríkisstjórn, og þakkaði honum, vil ég segja að það leiddi nú af sér að Jóni Bjarnasyni var varpað út úr Stjórnarráðinu. Ég skil því ekki hvers vegna hæstv. utanríkisráðherra kemur hér og hælir Jóni, en Jón á allt hið besta skilið fyrir að standa með sannfæringu sinni.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um þá breytingartillögu sem ég hef lagt fram um að greiða atkvæði um það hvort halda eigi áfram Evrópusambandsumsókn eða ekki. Breytingartillagan gengur út á að sú þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða (Forseti hringir.) forsetakosningum í sumar. Líst hæstv. utanríkisráðherra ekki einstaklega vel á þá hugmynd (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að fara að forgangsraða hér?