140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:36]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Enn og aftur bendi ég á þá staðreynd að hv. þingmaður virðist óttast hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn, þegar hann liggur fyrir, muni fara. Ég skil vel þann ótta. Ég tel að margt bendi til þess og vaxandi teikn séu um að samningurinn verði samþykktur á Íslandi þegar hann kemur til atkvæða.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að menn taki afstöður út frá eins miklum upplýsingum og hægt er og þekki kennileiti þess máls sem þeir taka afstöðu til eins vel og hægt er. Þess vegna hefur mín afstaða alltaf verið sú að menn geti það í reynd ekki, og hafi ekki tækifæri og aðstæður til að taka fullkomlega upplýsta afstöðu fyrr en samningurinn liggur fyrir. Það er ástæðan fyrir því að ég verð að hryggja hv. þingmann, eins og ég hef gert svo oft áður varðandi (Forseti hringir.) svipaða spurningu, að ég er ekki sammála henni um þetta.