140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra er einhvers konar sérfræðingur í að túlka landsfundarályktanir Vinstri grænna og Framsóknarflokksins og gerði það með glæsibrag áðan og ég ætla svo sem ekkert að fara í túlkanaslag við hann um það.

Annað sem hæstv. ráðherra ræddi var Króatía. Það er ekki nóg með að allir flokkar þar hafi haft á stefnuskrá sinni að ganga í Evrópusambandið heldur var allt embættismannakerfið og fjölmiðlarnir með líka. Þar af leiðandi hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir hæstv. ráðherra að horfa til þess hvernig andstaðan er á Íslandi. Fyrir skömmu mældist 63% andstaða að ég held við að ganga í þetta bandalag, og kosningaþátttakan í Króatíu var einungis rúm 40%.

Hæstv. ráðherra gerir mikið úr því að þjóðin eigi að fá að kjósa um samning af því að hún þurfi að vera upplýst um hvað eigi að kjósa. Er hæstv. ráðherra þar með að segja að hann treysti ekki þjóðinni til að greiða atkvæði um það hvort fara ætti í þessa vegferð? Af hverju fékk þjóðin ekki að ákveða það á sínum tíma (Forseti hringir.) hvort við ættum að fara að semja við Evrópusambandið?