140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vísar til þess að í Króatíu hafi allir flokkar og allt batteríið, fjölmiðlar, verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda verið meðfylgjandi aðild svo ekki væri nema von að hún hafi verið samþykkt.

Ef við horfum á hvernig þessir hlutir hafa verið í Norður-Evrópu blasir eitt við. Þar sem öll elítan hefur staðið með einhverjum þáttum eða atriðum sem hafa verið sett í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur það yfirleitt fallið í fyrstu atrennu. Ég held að á Íslandi sé staðan þannig að fólkið í landinu vilji fá að ráða. Það er orðið dauðleitt á stjórnmálaflokkum, það vill ekki láta þá skipa sér fyrir. Það vill hvorki láta ríkisstjórnina né stjórnarandstöðuna skipa sér fyrir, það vill fá að taka upplýsta ákvörðun. Þess vegna sýna endurteknar kannanir fram á að það er mikill og raunar vaxandi meiri hluti með því að ferlið verði til enda tekið og fólk fái að kjósa um það. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Ég veit að hv. þingmaður treystir þjóðinni eins og ég.