140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég er í reynd, frú forseti, búinn að svara þessari spurningu svo oft bæði í dag og mörgum sinnum áður. Ég lít svo á að Alþingi hafi gert samning við þjóðina, samning um að fara í viðræður, gera það besta sem við gætum, (Gripið fram í.) og koma heim með þann besta samning sem hugsanlega væri hægt að ná í stöðunni, koma með hann til þjóðarinnar og segja: Þetta lítur svona út, þið takið afstöðu. (Gripið fram í.)

Ég er þeirrar skoðunar að niðurstaðan verði þannig að þjóðin muni sjá að það sé henni til hagsbóta og til heilla að segja já við því sem upp kemur úr þeim samningum. Ég er sannfærður um það og þessi vegferð hefur heldur styrkt mig í því vegna þess að ég tel að verulegur skilningur sé hjá Evrópusambandinu fyrir ákveðnum hlutum sem margir hafa borið kvíðboga fyrir, t.d. innan sjávarútvegsins. Það verður hins vegar að koma í ljós.

Þetta er röklega hinn rétti gangur, að menn greiði atkvæði um hlutinn þegar þeir vita hvernig hann lítur út. (Gripið fram í.)