140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um nokkur atriði. Í fyrsta lagi er í 8. gr. reglugerðarheimild. Gæti hæstv. fjármálaráðherra sagt hvaða atriði hún hyggist setja í reglugerð í framhaldinu?

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra sams konar spurningar og ég spurði hæstv. utanríkisráðherra áðan. Það kemur fram í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins að búið er að skuldbinda 596 milljónir bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlaga þessa árs. Af hverju var þetta frumvarp ekki lagt til fyrr í ferlinu (Forseti hringir.) þannig að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þá áhættu sem íslenskir skattgreiðendur bera ef ske kynni að heimild Alþingis yrði ekki veitt?