140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:05]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég óska hér með eftir því að hv. Alþingi verði upplýst um það í meðförum nefndarinnar hvað hæstv. ráðherra hyggst setja í reglugerðarheimild, vegna þess að eins og hæstv. ráðherra veit er hægt að gera ýmsan skaða með reglugerðum.

Varðandi tímasetningarnar finnst mér alls ekki skýrt hvort styrkirnir verði greiddir út. Því er haldið fram að enginn peningur falli til fyrr en samningurinn hefur verið fullnustaður. En nú er búið að setja fjárveitingar inn í fjárlögin. Hagstofan gæti verið byrjuð að uppfæra sín kerfi. Svo má deila um aðrar fjárveitingar eins og til dæmis 150 milljónir til tollstjóra fyrir nýtt tollkerfi sem kemur kannski ekki af IPA-styrkjum en er vegna aðildarumsóknarinnar (Forseti hringir.) eins og allir vita. Þetta snýst um forgangsröð. Ef svo færi að samningurinn yrði felldur, getur hæstv. fjármálaráðherra fullvissað okkur um að kostnaðurinn lendi ekki (Forseti hringir.) á skattgreiðendum?