140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

tollalög.

367. mál
[19:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég á við er að núna er gefið bindandi álit á ákveðnum lögum og tollum, sem oft veitir ekki af vegna þess að þetta er orðið svo óskaplega flókið fyrir venjulegt fólk að það er nánast óskiljanlegt. Það verður reyndar verðugt verkefni, sem ég hef barist fyrir mjög lengi, að einfalda sérstaklega vörugjöldin og fella þau jafnvel niður — þau eru oft bara smotterí í tekjum ríkissjóðs.

Gefið er bindandi álit. Þá hefði ég talið að það gilti þar til viðkomandi lögum yrði breytt. En nú er búið að segja að bindandi álitið gildi í sex ár frá birtingardegi. Þá er gefið út að t.d. tollur af ákveðinni vöru sé þetta eða þetta hár og það á að gilda í sex ár samkvæmt þessu ákvæði.

Ég velti fyrir mér: Er búið að ákveða að festa niður gjaldið? Getum við þá ekki breytt því með lögum af því að það er búið að segja með lögum að viðkomandi gjald eigi að gilda í þennan tíma?

Ég vil gjarnan fá svar við þessu og að hv. nefnd skoði þetta þegar þar að kemur.