140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ef ég skil rétt þær tölur sem eru þarna í skýrslunni, þar á meðal þessa 144 milljarða sem bankarnir eru taldir hafa afskrifað nú þegar eða fært niður lánin um, er hluti af þeim þau lán sem dæmd voru ólögleg, þ.e. bankarnir þurftu að sjálfsögðu að greiða til baka eða leiðrétta þau lán sem voru ólögleg. (Gripið fram í.) Já, það eru væntanlega einir 120 milljarðar af þessum 144 þannig að það sem bankarnir hafa látið til almennrar niðurfellingar eða leiðréttingar á húsnæðislánum eru 20 og eitthvað milljarðar miðað við þetta.

Það er ekki nýtt í þessari skýrslu að það kosti um 200 milljarða að leiðrétta lánin, það kom fram fyrir löngu. Spurningin er hins vegar þessi: Ætlum við áfram að horfa á þá staðreynd, eins og kemur fram hjá Hagstofu Íslands núna í október, að um 50% heimila landsins eru í vandræðum með að ná endum saman? Stór hluti af því er vegna skuldsetningar heimilanna. Ætlum við að horfa fram hjá þessu? Nei, við getum ekki horft fram hjá þessu. Út af þessu þurfum við áfram að kanna hvort hægt sé að fara í almenna leiðréttingu en það kemur ekki í veg fyrir að við skoðum sérstaklega þá sem eru með lánsveð svo dæmi sé tekið. Til að menn séu ekki í vafa um hvað lánsveð er þá er það lán með veði frá öðrum. Það þarf að sjálfsögðu að skoða það.

Við þurfum líka að fara yfir það hvort við getum notað skattkerfið. Við framsóknarmenn höfum bent á það og hvatt til þess að búa til kerfi þar sem það fólk sem getur borgar lánin hraðar niður. Hluti af því sem þeir sem borga niður lán færi í að veita skattafslátt, þ.e. ef maður borgar niður 1 eða 2 milljónir fær hann skattafslátt. Þetta er ein þeirra leiða sem við viljum að séu skoðaðar.

Það kemur að minnsta kosti ekki til mála að leggja árar í bát og segja að við getum ekki gert meira fyrir þennan stóra hóp sem þarf svo sannarlega á því að halda að fá leiðréttingu á sínum lánum (Forseti hringir.) því að þetta er sá hópur sem þarf að keyra áfram samfélagið.