140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðuna um skýrslu Hagfræðistofnunar. Stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að búið sé að fullnýta svigrúmið sem myndaðist við færslu á eignum úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana og að kostnaður vegna leiðréttingar lána muni að mestu leyti falla á ríkið og þar með skattgreiðendur. Það er nú þegar ljóst að þessi skýrsla Hagfræðistofnunar verður ekki til þess að sátt náist í samfélaginu um endurreisnina og það harma ég. Niðurstaða hennar stemmir til dæmis ekki við fyrirliggjandi upplýsingar. Marinó G. Njálsson og Hagsmunasamtök heimilanna fullyrða að ekki sé búið að nýta allt svigrúmið og að enn þá standi eftir 53 milljarðar.

Virðulegi forseti. Nú fullyrða margir að of seint sé að leiðrétta öll fasteignalán, fjármálaráðherra hafi samið af sér við endurreisn bankakerfisins, en ég fullyrði á móti að nauðsynlegt sé að leiðrétta öll fasteignalán ef við ætlum að komast út úr skuldakreppu sem er að verða sambærileg við það sem Japan hefur þurft að kljást við síðan í sinni fjármálakreppu. Andstaðan við almenna leiðréttingu lána er blekkingaleikur og tilraun til að láta 60 þús. heimili í stað 150 þús. heimila taka á sig tap Íbúðalánasjóðs. Lífeyrissjóðir eiga eignir sem geta tapast og rýrnað. Það er sjóðfélaganna en ekki skuldsettra heimila að taka á sig það tap.

Virðulegi forseti. Það þarf að tryggja að allur afslátturinn á eignasöfnunum fari til heimilanna (Forseti hringir.) og við eigum að horfast í augu við vandann og leysa hann í sátt.